Nóg að gera hjá Sláttuvélagenginu
- 12 ára drengir í eigin rekstri
„Það er fullt að gera og alltaf nýir garðar að bætast við,“ segir Daníel Dagur Árnason, 12 ára en hann stofnaði á dögunum Sláttuvélagengið DAG ásamt vinum sínum, þeim Axel Gomez og Gabríel Mána Unnarssyni. Þeir voru allir að ljúka 7. bekk í vor. Drengirnir eru með sláttuvél, orf, hrífur og poka undir hey og fara á milli garða í Reykjanesbæ og slá.
Það er misjafnt hversu mikið slátturinn kostar og fer eftir því hve stór garðurinn er. „Ef það er lítill garður og hundaskítur sem þarf að tína upp eru þetta 4.000 krónur,“ segja þeir en mikilvægt er að tína upp eftir hundana því stykkin þeirra geta farið illa með sláttuvélina.
Vinnan við sláttinn er fyrsta vinnan þeirra en Daníel Dagur hafði aðstoðað pabba sinn sem er málari. Þeir eru of ungir til að fá vinnu hjá vinnuskólanum en segjast heldur ekki mjög spenntir fyrir því að reyta arfa. „Svo er líka miklu meira upp úr þessu að hafa,“ segja þeir, hæst ánægðir með sláttuvélastarfið. Nánari upplýsingar um Sláttuvélagengið má nálgast á Facebook-síðunni Garðsláttur hjá sláttuvélagenginu DAG.