Njarðvíkingur í Noregi þekkti duflið
Njarðvíkingurinn Kristján Stefánsson, sem búsettur er í Noregi, kannast vel við duflið dularfulla sem fannst í Helguvík núna fyrir helgi og við sögðum frá hér á vefnum gær.
Kristján hefur verið búsettur í Noregi síðan 1974 og fylgist daglega með fréttum á vf.is. Í gær sá hann myndina og greinina af duflinu torkennilega og kannaðist strax við gripinn, enda notar Kristján þennan búnað daglega við störf sín.
Kristján er 1. stýrimaður á norsku olíuborskipi sem heitir West Navigator.
„Þegar við borum notum við GPS gervihnetti og búnað sem kallast Transponderer.Við notum átta slíka sem við látum síga niður á hafsbotn. Þeir senda síðan merki upp í sérstaka mótttakara sem við höfum einn á hverri síðu. Myndin af duflinu í Helguvík er af einum slíkum”, útskýrir Kristján í tölvupósti sem hann sendi okkur í morgun.
Vildi Kristján nota tækifærið og skila kveðju til vina og vandamanna hér heima.
Kerfið sem um ræðir kallast HIPAP 500 og er hannað og framleitt í Noregi. Því er ætlað að miða út nákvæmar staðsetningar á hafsbotni með sérstakri þrívíddartækni.
Inn í kúlunni eru kynstrin öll af skynjurum og vírum, enda afar flókinn búnaður á ferðinni. Slíkir hlutir eru ekki daglega fyrir almenningssjónum og því ekki nema von að starfsmenn Hringrásar vildu hafa vaðið fyrir neðan sig.
Efri mynd:
Dufið torkennilega reyndist vera hættulaus rannsóknarbúnaður.
Neðri mynd:
Borskipið West Navigator, þar sem Kristján Stefánsson starfar sem 1. stýrimaður