Njarðvík og Keflavík ein í Reykjaneshöllinni?
Svo gæti farið að Njarðvík og Keflavík yrðu einu knattspyrnufélögin sem fengju að stunda knattspyrnu í Reykjaneshöllinni í vetur. Á 38. fundi Menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar var erindi knattspyrnufélaga Njarðvíkur og Keflavíkur um aukna æfingatíma samþykkt. Formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur fagnar niðurstöðu MÍT og segir það nauðsynlegt að í Grindavík rísi fjölnotahús til íþróttaiðkunar.
Stefán Bjarkason framkvæmdastjóri MÍT sagði í samtali við Víkurfréttir að uppgangur væri í kvennaknattspyrnunni í Reykjanesbæ og því væri þörf á auknum æfingatíma fyrir félögin. Tillagan ætti engu að síður eftir að fara í gegnum bæjarstjórn og ljóst væri að tekjutap hlytist af því ef Njarðvík og Keflavík væru einu félögin sem æfðu í Reykjaneshöllinni.
Á vefsíðu UMFG kemur fram að knattspyrnudeild þeirra væri án æfingaðstöðu vegna þessa en þar í bæ hefur verið tekið á það ráð að kynna sér fjölnotahús með gervigrasi svo félagið dragist ekki aftur úr hvað styrk og aðhlynningu að yngri flokkum varðar. Húsið sem er í skoðun hjá Grindvíkingum svipar til hússins sem FH er að byggja og á að vígja nú um áramótin. Það hús er 45 m x 62 m og u.þ.b. 12 m á hæð. Fleiri íþróttir en knattspyrna myndu rúmast í húsi af þessu tagi í Grindavík, til að mynda gæti göngufólk leitað í húsið ásamt því að hinar ýmsu uppákomur gætu flust þar inn ef leiðindaveður skylli á.
„Það er ekki eftir neinu að bíða og við verðum að taka skrefið í átt til framkvæmda, staða Grindavíkurbæjar er það sterk miðað við önnur sveitarfélög á svæðinu og knattspyrnumenn hafa hingað til verið í forsvari fyrir uppbygginu á íþróttamannvirkjum hvað knattspyrnuna varðar. Við höfum lagt hönd á plóginn við að leggja gras á alla sparkvelli okkar og safnað fé frá þjónustuaðilum og útgerðaraðilum í þessi mannvirki og nú síðast í stúkuna okkar. Nógu erfitt er að reka knattspyrnudeild, aðrir stjórnendur knattspyrnufélaga á landinu þurfa ekki að hafa áhyggjur af uppbyggingu á íþróttamannvirkjum en hér í bæ höfum við þurft að hafa frumkvæðið að allri okkar uppbyggingu,“ sagði Jónas Þórhallsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur.
„Einnig fagna ég þeirri niðurstöðu hjá MÍT að nota sína aðstöðu fyrir sína iðkendur og hafa þannig manngildin skörinni ofar en peningagildin,“ sagði Jónas í samtali við Víkurfréttir í dag.
VF-mynd/ frá knattspyrnumóti í Reykjaneshöllinni