Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 31. mars 2000 kl. 09:19

Njarðvík og Haukar einum sigri frá úrslitum

Njarðvíkingar lögðu KR 98:88 í Njarðvík í kvöld. Heimamenn tóku strax forystuna í leiknum og héldu henni allt til loka. Mest komust þeir í 24 stiga forskot og voru 21 stigi yfir í hálfleik, 49:28. KR-ingar léku ekki vel í leiknum og töpuðu boltanum alls 25 sinnum, þar af 18 sinnum í fyrri hálfleik. Þeir náðu þó að minnka muninn í sex stig þegar rúm mínúta var eftir, en þá tóku Njarðvíkingar við sér á ný og náðu að ljúka leiknum með tíu stiga mun. Teitur Örlygsson átti stórleik fyrir Njarðvíkurliðið og skoraði 35 stig og átti fjórar stoðsendingar. Þá gerði Logi 27 stig í leiknum og Riley Inge 13 fyrir Njarðvík. Keith Vassel var stigahæstur í liði gestanna með 25 stig, Jesper Sörensen var með 25 stig og Jonathan Bow 14.Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga var að vonum ánægður með sigurinn: „Það var mikill vilji í okkur í byrjun leiks. Við náðum við góðu forskoti í upphafi og lögðum þá grunninn að þessum sigri hér í kvöld. Logi kom sterkur inn í leikinn, spilaði fantagóða vörn og var einnig sterkur í sókninni. Við sofnuðum á verðinum undir lokin og hleyptum þeim allt of nálægt okkur, en vöknuðum þá aftur og náðum að auka forskotið. Það var slæmt að missa þrjá menn út af með fimm villur, en þar finnst mér dómarar leiksins ekki hafa verið nægilega samkvæmir sjálfum sér.‰ Njarðvíkingar geta tryggt sér sæti í úrslitum með sigri í næsta leik, en Friðrik vill sem minnst segja um framhaldið: „Við verðum að taka þá stöðu sem er uppi hverju sinni og vinna úr henni, við förum náttúrlega í hvern leik til að vinna hann‰, sagði Friðrik Ingi að lokum. Grindvíkingar töpuðu fyrir Haukum, 74:56 í Hafnarfirði í kvöld. Haukar voru yfir allan leikinn og náðu Grindvíkingar aldrei að ógna þeim verulega. Brenton Birmingham var stigahæstur Grindvíkinga í leiknum með 17 stig og hirti 7 fráköst, Alexander Ermolinski skoraði níu stig, en Bergur Hinriksson og Dagur Þórisson átta stig hvor. Stais Böseman var atkvæðamestur Hauka í leiknum með 18 stig, Jón Arnar Ingvarsson skoraði 17 stig og Leifur Þ Leifsson 13.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024