Njarðvík gegn Grindavík í Kjörísnum
Keflvíkingar eru brattir enda í efsta sæti Epson-deildarinnar í körfuknattleik. Þeir eru hins vegar úr leik í Kjörísbikarnum. Þar munu Grindavík og Njarðvík eigast við um helgina.Keflvíkingar lögðu Valsmenn 93-81 í Epson-deildinni í körfu sl. fimmtudag. Á sama tíma unnu Grindvíkingar Borgnesinga 81-115 og Njarðvíkingar voru ekki í vandræðum með slakt lið Ísfirðinga og unnu 94-115. Sl. fimmtud gerðist það hins vegar að Keflvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu í Epson-deildinni þegar ÍR-ingar stálu sigrinum á síðustu sekúndunum og unnu 89-88. Njarðvík vann þægilegan sigur á Borgarnesi 82-73 og Grindvíkingar lögðu Þór á föstudagskvöld 95-75 í ójöfnum leik. Nú er smá hlé í Epson-deildinni og næstu leikir fara fram þriðjudaginn 13. nóvember. Keflvíkingar eru nokkuð brattir enda í efsta sæti og eftirfarandi er að finna á heimasíðu þeirra: „Að sjö umferðum loknum trónum við í efsta sæti deildarinnar, en sterk félög fylgja fast á hæla okkar. Grindavík, Njarðvík, Tindastóll og Haukar hafa aðeins tapað einum leik meira en við. Við eigum þó erfiðustu leikina að baki og teljum góðar líkur á því að geta haldið efsta sætinu fram að jólum“, segir á heimasíðu Keflavíkur. Heimasíðan spáir því að Keflavík muni ekki tapa fleiri leikjum í fyrri umferðinni og ná þannig 10 sigrum af 11 mögulegum. Grannar okkar úr Njarðvík munu líklega verma annað sætið um áramótin og eins gerum við ráð fyrir að KR muni fikra sig hægt og rólega upp töfluna. Og þetta segja Keflvíkingar um Kjörísbikarinn sem þeir hafa unnið þrisvar á síðustu fjórum árum: „Njarðvík og Grindavík eigast við í undanúrslitum Kjörís-bikarkeppninnar og munu leika hörkuleik þar sem úrslitin geta lent hvoru megin sem er. Grindavík leikur áhættumikinn bolta og þeirra gengi fer mikið eftir hittni skyttanna. Í hinum undanúrslitunum leika KR og Tindastóll. Vassel er væntanlegur í Vesturbæinn, en Stólarnir hafa titil að verja og eru í fínu formi. Þeir eru því sigurstranglegri í undanúrslitunum. Njarðvíkingar eru líklega með sterkasta lið keppninnar, en þó geta öll liðin unnið. Við vonumst bara eftir spennandi leikjum og flottum tilþrifum.“