Níutíu og átta brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram sl. laugardag.
Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram sl. laugardag. Að þessu sinni útskrifuðust 98 nemendur.
Af þessum 98 voru 69 stúdentar, 14 sjúkraliðar, 7 brautskráðust af starfsbraut, 9 úr verknámi og einn lauk listnámi. Auk þess lauk einn skiptinemi námi sínu í skólanum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 60 og karlar 38. Alls komu 76 úr Reykjanesbæ, 9 úr Grindavík, 7 úr Sandgerði og tveir úr Garði og Vogum. Einn kom frá Egilsstöðum og einn úr Garðabæ.
Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Guðný Inga Kristófersdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ása Valgerður Einarsdóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nýstúdentarnir Margrét Vala Kjartansdóttir, Blær Elíasson, Elvar Ingi Ragnarsson, Eyþór Eyjólfsson, Anna Katrín Gísladóttir og Eydís Sjöfn Kjærbo fluttu tónlist við athöfnina ásamt nemendum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Guðni Friðrik Oddsson fékk viðurkenningu fyrir störf sín í þágu nemenda skólans og Sigurbergur Elísson fyrir störf í þágu fatlaðra nemenda. Anny Mooyung Lee og Ryan Mohchi Lee fengu verðlaun fyrir góðan árangur í fata- og textílgreinum, Sóley Björg Ingibergsdóttir og Jón Örn Arnarson fyrir spænsku og Alfreð Georg Alfreðsson fyrir bókfærslu. Bjarnrún Magdalena Tómasdóttir Olsen fékk viðurkenningu mjög góðan árangur í vinnustaðarnámi á sjúkraliðabraut, Björn Geir Másson fyrir árangur sinn í vélstjórn og Garðar Björgvinsson fyrir stuttmyndagerð. Gunnþórunn Gísladóttir og Jóhanna Ósk Kristinsdóttir fengu báðar viðurkenningar fyrir sálfræði, Svandís Þóra Sæmundsdóttir fyrir efnafræði og Soffía Rún Skúladóttir fyrir stærðfræði. Joanna Katarzyna Kraciuk fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í frönsku og stærðfræði og Kristjana Vigdís Ingvadóttir fyrir frönsku og sögu. Maja Potkrajac fékk viðurkenningu frá Rótarýklúbbi Keflavíkur fyrir besta námsárangur af starfsnámsbrautum og hún fékk einnig verðlaun fyrir frábæran árangur í námsgreinum tengdum heilbrigðigreinum en það var Stýrihópur um Heilsueflandi framhaldsskóla hjá Embætti landlæknis sem gaf þau. Guðný Inga Kristófersdóttir fékk gjöf frá Danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku og hún fékk einnig viðurkenningar fyrir árangur sinn í spænsku, viðskipta- og hagfræðigreinum og bókfærslu. Eydís Sjöfn Kjærbo fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í spænsku, eðlis- og efnafræði, stærðfræði og einnig fyrir líffræði og líffæra- og lífeðlisfræði. Hún fékk gjafir frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í líffræðigreinum. Aníta Eva Viðarsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í spænsku, ensku, stærðfræði og eðlis- og efnafræði. Aníta Eva fékk gjöf frá Danska sendiráðinu fyrir góðan árangur í dönsku, hún fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og frá Háskólanum í Reykjavík fyrir ágætan árangur í raungreinum
Landsbankinn veitti við útskriftina viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og var það Björn Kristinsson sem afhenti viðurkenningarnar fyrir hönd bankans. Að þessu sinni hlaut Kristjana Vigdís Ingvadóttir verðlaun fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum á stúdentsprófi og Alfreð Georg Alfreðsson fyrir góðan árangur í íslensku. Aníta Eva Viðarsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum og fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum. Aníta Eva hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fékk að launum 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum.
Við útskriftina veitti nemendafélagið NFS verðlaun fyrir jákvæða framkomu á skemmtunum félagsins í vetur. Það var Ísak Ernir Kristinsson, formaður félagsins, sem afhenti verðlaunin en tveir nemendur fengu iPad sem Reykjanesbær gaf.
Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita nemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Elva Dögg Sigurðardóttir, Gísli Janus Jónsson, Lovísa Guðjónsdóttir og Birna Rós Ágústsdóttir fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og góðan árangur í lífsleikni.
Við lok athafnarinnar veitti skólameistari Herði Ragnarssyni, Sigurlaugu Kristinsdóttur og Þorvaldi Sigurðssyni gullmerki FS en þau hafa starfað við skólann í 25 ár. Þá fengu Kristbjörn Albertsson og Ingimundur Þ. Guðnason einnig gullmerki skólans en þeir sátu báðir um árabil í skólanefnd en hættu þar fyrr á þessu ári.
Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari vorönn 2013.
(Texti af fss.is)