Níu vilja byggja á Skipastíg 3 í Grindavík
Dregið var um byggingarlóðir í Grindavík nú í vikunni. Tuttugu og tveir einstaklingar sóttu um átta einbýlishúsaslóðir, þar af 9 um sömu lóðina, Skipastíg 3. Einnig voru margir umsækjendur um Skipastíg 5 og 7. Byggingaverktakinn Grindin fékk síðan 29 par- og raðhúsalóðir, en þær eru ætlaðar Búmönnum að stærstum hluta. Viðar Már Aðalsteinsson, byggingafulltrúi Grindavíkurbæjar, sagði að snemma hefði verið ljóst að margir umsækjendur yrðu um umræddar lóðir. Ákveðið var að draga um lóðirnar og halda sig við gatnagerðargjaldskrá, eins og verið hefur, í stað þess að bjóða þær út. „Það er nóg af lausum lóðum á þessu svæði og stefna okkar hefur verið að laða að nýja íbúa. Þess vegna hefur ekki tíðkast að bjóða út lóðir eins og gert hefur verið í Reykjavík, en þar er ástandið orðið skuggalegt“, segir Viðar Már.Lóðaúthlutunin hefur tekið langan tíma en bygginganefnd ákvað að bíða með hana, þangað til búið væri að setja ákveðnar úthlutunarreglur þar sem eftirspurn var mikil. „Verktakar fengu að sækja um ákveðið svæði, þar sem reisa á par- og raðhús en einstaklingar fengu einbýlishúsalóðirnar“, segir Viðar Már og bætir við að lóðirnar verði væntanlega byggingarhæfar í júlí á þessu ári. Enn er ekki ljóst hvenær raðhúsin sem Grindin sér um að byggja, verða tilbúin en fyrirtækið á nú í viðræðum við Búmenn. Að sögn Viðars Márs ætti niðurstaðan að vera komin innan fárra daga.