NÍU TILBOÐ BÁRUST Í FJÖLNOTA ÍÞRÓTTAHÚS
Níu tilboð frá tveimur dótturfyrirtækjum Íslenskra aðalverktaka, Verkafli hf. og Ármannsfelli hf., bárust í fjármögnun, byggingu og rekstur fjölnota íþróttahúss í Reykjanesbæ en tilboðin voru opnuð sl. mánudag. Ekkert tilboð barst frá Keflavíkurverktökum en þeim var einnig boðið að taka þátt í útboðinu.Tilboðin níu eru margvísleg og býður Verkafl fram fjögur þeirra. Í aðaltilboðinu býður það húsið til leigu næstu sjö árin á tæpar 52 milljónir króna á ári en jafnframt greiði bærinn 37 milljónir vegna kaupa á því árlega. Í einu frávikstilboðinu býðst leiga upp á 7.7 milljónir á mánuði í 7 ár og greiðslur fyrir kaupin á ári 100 þús. krónur. Í hinum tveimur bjóðast þeir til að byggja húsið annars vegar fyrir 328 milljónir og hinsvegar fyrir 367 milljónir, allt eftir útfærslum. Húsið sem Verkafl býðst til að byggja er eftir danskri fyrirmynd.Í aðaltilboði Ármannsfells býðst bænum að leigja húsið næstu sjö árin á 39 milljónir á ári og greiðslur fyrir kaup verði tæpar 44 milljónir árlega. Í einu frávikstilboði þeirra býðst leiga á 29 milljónir í sjö ár og kaupin greiðist á 15 árum og verði 29 milljónir árlega. Hin þrjú frávikstilboðin hljóða upp á byggingu hússins í mismunandi útfærslum og eru frá 298 milljónum upp í 374 milljónir króna en öll þessi tilboð byggjast á húsi frá finnsku fyrirtæki.Dómnefnd hefur því úr vöndu að ráða þessa dagana en í henni sitja Skúli Skúlason, Þorsteinn Erlingsson og Kristmundur Ásmundsson. Vildu þeir ekkert tjá sig um tilboðin að svo stöddu enda mikil vinna í því að fara yfir þau og munu niðurstöður þeirra liggja fyrir á næstunni.