Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Níu slökkviliðsmenn á skólabekk
Þriðjudagur 21. febrúar 2012 kl. 09:36

Níu slökkviliðsmenn á skólabekk

Níu slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja og Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli settust í gær á skólabekk. Framundan er 530 stunda nám sem nemendurnir inna af hendi næstu sex vikurnar og svo aftur í sex vikur að ári þegar seinni hluti námsins verður kláraður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Námið er bæði bóklegt og verklegt en í náminu er mikil verkleg þjálfun að sögn Jóns Guðlaugssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja. Námið er samstarfsverkefni slökkviliðanna tveggja og samþykkt af yfirvöldum brunamála. Allir kennarar og leiðbeinendur koma einnig frá slökkviliðunum sem standa að náminu. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi tvö slökkvilið sameinast um þetta nám en áður hefur verið farið yfir sama námsefni í samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Slökkviliðið á Akureyri.

Jón Guðlaugsson sagði það vera mikla viðurkenningu fyrir Brunavarnir Suðurnesja og Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli að fá að bera á byrgð á þessu umfangsmikla námi fyrir slökkviliðsmenn. Bæði mun námið nýtast slökkviliðsmönnunum vel og þá er það góð endurmenntun og upprifjun fyrir þá sem koma að kennslunni.

Sú nýbreytni á sér stað núna að námið verður allt tekið upp á myndband og mun það nýtast slökkviliðsmönnum hjá minni slökkviliðum úti á landi sem eiga þess ekki kost að senda nemendur í slökkviliðsmannanámið. Námið er dýrt, enda um daglegt nám að ræða frá kl. 08 á morgnanna til kl. 17 síðdegis alla virka daga í sex vikur nú og aðrar sex vikur að ári.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við skólasetningu á slökkvistöð Brunavarna Suðurnesja í gærmorgun. VF-mynd: Hilmar Bragi





Frá setningu skólans á slökkvistöðinni í Keflavík í gærmorgun.