Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Níu flugfélög fljúga allt árið um Keflavíkurflugvöll - flýta þarf framkvæmdum
  • Níu flugfélög fljúga allt árið um Keflavíkurflugvöll - flýta þarf framkvæmdum
    Sveinbjörn Indriðason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia.
Miðvikudagur 20. janúar 2016 kl. 06:00

Níu flugfélög fljúga allt árið um Keflavíkurflugvöll - flýta þarf framkvæmdum

- 25 flugfélög fljúga um völlinn í sumar

Gríðarleg fjölgun ferðamanna til Íslands og þar af leiðandi fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll hefur vart farið fram hjá neinum. Áætlunum sem Isavia gerði fyrir árin 2016 og 2017 þarf að flýta vegna fjölgunar farþega um Keflavíkurflugvöll. „Á örfáum mánuðum hefur farþegaspáin breyst mikið og færst fram um tvö ár,“ sagði Sveinbjörn Indriðason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia, á fundi í Reykjanesbæ í gær. Fundurinn var haldinn í tilefni af Skattadegi Deloitte.

Sá fjöldi ferðamanna sem áætlað var að færi um Keflavíkurflugvöll árið 2018 mun að öllum líkindum fara um völlinn nú á þessu ári eða um 6,2 milljónir farþega. Sveinbjörn sagði fjárfestingaráætlanir hafa verið byggðar á eldri spám og var áætlað að framkvæmt yrði fyrir 11 milljarða en nú er sú tala orðin ívið hærri. „Viðfangsefnið okkar árið 2016 verður því að komast yfir allt sem við höfðum áætlað að framkvæma á tveimur árum, 2016 og 2017,“ sagði hann. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú í sumar munu 25 flugfélög fljúga reglulega um Keflavíkurflugvöll. Í máli Sveinbjörns á fundinum í dag kom fram að þann árangur mætti meðal annars rekja til þess að Isavia hafi frá upphafi skilgreint sig sem fyrirtæki í ferðaþjónustu. „Við höfum farið á ráðstefnur erlendis og kynnt Ísland sem áfangastað og Keflavíkurflugvöll sem flugvöll sem hagkvæmt er að fljúga til. Það hefur gengið vel og skilað okkur þessari umferð.“

Níu flugfélög flugu til Íslands allt árið í fyrra. Til samanburðar voru þau tvö árið 2005, Icelandair og Iceland Express. Árið 2010 bættist svo SAS í hópinn. Að sögn Sveinbjörns er eitt að fá flugfélög til að taka rjómann yfir sumarið og annað að reyna að fá félög til að fljúga til landsins allt árið. „Þetta er gríðarlega mikilvægt og tengist því hvernig við skilgreindum okkur í upphafi. Við höfum lagt mikla áherslu á að fá erlend flugfélög til að fljúga til okkar yfir veturinn.“ Í máli Sveinbjörns kom fram að með meiri dreifingu væri hægt að taka við um 10 milljón farþegum árlega á Keflavíkurflugvelli. „Hjá okkur eru tveir til þrír álagspunktar, á morgnana, seinni partinn og svo um miðnætti. Það eru tækifæri til að beina nýjum flugfélögum inn á þann tíma sem rólegt er og þannig bæta nýtingu flugvallarins verulega.“