Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Níu félagslegar íbúðir seldar í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 12. júlí 2007 kl. 09:42

Níu félagslegar íbúðir seldar í Reykjanesbæ

-Viðhald fjárhagslegur baggi segja Fasteignir Reykjanesbæjar
-Íbúar uggandi um framhaldið


Fasteignir Reykjanesbæjar ehf., sem eiga og reka félagslegt húsnæði sem úthlutað er af félagsþjónustunni í Reykjanesbæ, munu bráðlega ganga frá sölu á níu félagsíbúðum að Hringbraut 128. Íbúar í þeim íbúðum höfðu samband við Víkurfréttir og lýstu yfir áhyggjum sínum með framtíðarstöðu sína á húsnæðismarkaði, því eins og gefur að skilja er stór hluti þess fólks sem þar býr með lágar tekjur og ætti erfiðara með að fóta sig á almennum leigumarkaði.


Þá væri engin trygging fyrir því að nýjir eigendur, sem hafa keypt upp allar íbúðirnar í blokkinni, muni ekki hækka leiguna eða segja leigunni upp.


Hjörtur Zakaríasson, framkvæmdastjóri Fasteigna Reykjanesbæjar ehf., sagði að ekki væri farið út í þetta mál í einhverjum illvilja gagnvart núverandi íbúum. Ástæðan sé að dýrar endurbætur hafi staðið fyrir dyrum. Stefna félagsins er að losa eldra húsnæði sem er viðhaldsfrekara, en í fyrra voru 7 íbúðir þess seldar. Viðhald á þeim 240-250 íbúðum sem félagið á hefur verið afar þungt í rekstri undanfarin ár, eða um 70-80 milljónir á ári.


„Viðhaldið hefði orðið geysilega kostnaðarsamt þar sem húsið er mjög illa farið og stóð til að skipta um þak og klæða  húsið að utan. Kostnaður við framkvæmdirnar hefði numið um 50 milljónum,“ sagði Hjörtur og bætti því við að þeir hafi tekið ákvörðun um að selja þegar tilboðið barst. Þá fjármuni sem koma út úr sölunni má nota í önnur verkefni.


„Ég veit að einhverjir íbúar eiga eftir að verða súrir, en þeir sem eru í félagslegu íbúðunum hafa sinn uppsagnarfrest og það er ekkert sem segir að þeir geti ekki sótt um aðrar íbúðir í kerfinu.“ Hann bætti því jafnframt við að þó félagið hafi leigt íbúðirnar á undirverði sé leiguverð á hinum almenna markaði ekki mikið hærra.


Hjörtur gat ekki sagt til um hvort í burðarliðnum væri að byggja nýjar íbúðir á vegum félagsins, en nýverið hafi verið stofnuð nefnd á vegum bæjarins til að marka stefnu í þessum málum, þ.e. hvort kerfið verði eflt með fleiri íbúðum eða hvort íbúðum yrði fækkað frekar.

VF-mynd/Magnús

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024