Nítján ökumenn teknir fyrir hraðakstur
Lögreglan á Suðurnesjum hefur á síðustu dögum kært nítján ökumenn fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 143 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Einn þessara ökumanna, sem mældist á 115 km hraða var grunaður um ölvunarakstur. Annar sem mældist á 121 km hraða var einnig grunaður um ölvunarakstur og var hann jafnframt með útrunnin ökuréttindi.
Þá voru nokkrir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra var með meint kannabis í fórum sínum. Annar var ekki með gild ökuréttindi.