Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nítján aðilar þátttakendur í forvarnastefnu Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 19. febrúar 2004 kl. 17:32

Nítján aðilar þátttakendur í forvarnastefnu Reykjanesbæjar

Alls eru 19 aðilar í Reykjanesbæ sem tengjast forvarnastefnu bæjarins, en samstarfið var formlega kynnt á fundi sem haldinn var í Kirkjulundi í dag. Forvarnastefnan var samþykkt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í nóvember sl.  Markmið forvarnastefnunnar er að stuðla að auknu heilbrigði og hamingju barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Í forvarnastefnunni segir að til þess að slíkum árangri megi ná þurfi markvissa og góða samvinnu meðal þeirra sem vinni að forvörnum.

Á kynningarfundinum í dag var fulltrúum allra þeirra aðila sem taka þátt í forvarnastefnunni afhent eintak af stefnunni. Í vinnuhópnum sem vann að gerð forvarnastefnunnar eru Ragnar Örn Pétursson forvarna- og æskulýðsfulltrúi, Rannveig Einarsdóttir yfirfélagsfræðingur og Gylfi Jón Gylfason yfirsálfræðingur.

Í máli Ragnars Arnar kom fram að bæjarstjórn hafi skipað 6 aðila í svokallað forvarnateymi frá stofnunum Reykjanesbæjar. Gert er ráð fyrir að forvarnateymið komi saman 2 til 3 sinnum á ári og fari yfir markmið og framkvæmd forvarnastefnunnar og að einu sinni á ári verði samráðsfundur allra aðila.

Ragnar Örn sagði að mjög margir aðilar ynnu gott forvarnastarf í bænum og benti hann sérstaklega á að slíkir aðilar gætu sótt um styrki til forvarnasjóðs Reykjanesbæjar, en í sjóðnum er ein og hálf milljón króna til úthlutunar á þessu ári.

Forvarnastefna Reykjanesbæjar.

Myndin: Forsvarsmenn forvarnastefnu Reykjanesbæjar í Kirkjulundi í dag. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024