Nikkel-svæðið - Kostnaður við hreinsun áætlaður 62 milljónir
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur borist bréf frá utanríkisráðuneytinu, þar sem ráðuneytið leggur fram uppkast að leigusamningi. Erindi ráðuneytisins var til umfjöllunar á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag. Ellert Eiríksson, bæjarstjóri, lagði til að bæjarráð kysi þrjá bæjarfulltrúa sem annist viðræður við utanríkisráðuneytið vegna Neðra Nikkelsvæðisins. Tillagan var samþykkt 11-0.„Þetta er í fyrsta sinn sem okkur berast skrifleg gögn frá ráðnuneytinu en þetta mál má rekja aftur til ársins 1987. Bæjarstjórn er nú með málið til umfjöllunar“, sagði Ellert Eiríksson.Landið sem um ræðir eru 69 hektarar að flatarmáli og gert er ráð fyrir að byggja á 35,5 ha, sem er 48% nýting. Ráðuneytið leggur til að leigusamningur verði gerður til 99 ára og að leigugjald miðist við 1,2% fasteignamat allra lóða. Mikill styr hefur staðið um þetta landsvæði að undanförnu og umræða um mengun hefur verið áberandi. Samkvæmt niðurstöðum óháðra aðila er mengunin viðráðanleg en í bréfi ráðuneytisins er skýrt tekið fram að leigutaki geri sé fulla grein fyrir ástandi landsins og beri ábyrgð á hagnýtingu þess og hreinsun, sem á að ljúka innan 18 mánaða frá undirritun samningsins. Hreinsunarkostnaður er áætlaður um 62 millj. kr. með virðisaukaskatti.Í bréfinu segir orðrétt: „Leigutaki afsalar sér öllum bótarétti vegna ástands landsins og fyrri notkunar þess og skal bera fulla ábyrgð á framangreindri hreinsun landsins og tjóni sem af henni kann að hljótast. Leigutaka er kunnugt um, og sættir sig við, að kröfur verða ekki hafðar uppi gegn Varnarliðinu eða öðrum fulltrúum bandarískra yfirvalda sem fyrri umráðaaðila landsins.“