Niðurstöður rannsókna útiloka ekki byggingu flugvallar í Hvassahrauni
Skýrsla starfshóps um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni var kynnt í dag. Helstu niðurstöður eru þær að veðurskilyrði mæla ekki gegn byggingu flugvallar í Hvassahrauni, að flugvallarsvæði væri að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og að langtímaáhrif verði ekki mikil á innanlandsflug verði það fært á nýjan flugvöll. Meðal tillagna hópsins er að skilgreint svæði verði tekið frá upp af Hvassahrauni fyrir þrjár flugbrautir og að unnið verði að frekari rannsóknum. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra: „Vandaðar og yfirgripsmiklar rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni eru mikilvægar fyrir samfélagið til framtíðar. Undirbúningur fyrir byggingu flugvallar tekur langan tíma og það blasir við að þróa þarf nýtt flugvallarsvæði fyrir ólíkar þarfir í flugsamgöngum til lengri framtíðar. Aðstæður á Reykjavíkurflugvelli bjóða til að mynda ekki upp á þróunarmöguleika. Það er því brýnt að skapa umræður um niðurstöður starfshópsins og eiga samtal um framtíðarvalkosti. Niðurstöður rannsóknanna nú útiloka ekki að byggður verði flugvöllur á Hvassahrauni þegar horft er til lengri tíma og að það komi til álita að byggja upp flugvöll fyrir þyrluflug, einkaflug og innanlandsflug í Hvassahrauni,“ sagði Svandís.
Starfshópurinn var skipaður á grunni samkomulags ríkis og borgar frá árinu 2019 um að rannsaka byggingu flugvallar í tveimur áföngum, og er þeim fyrri nú lokið. „Það er mikilvægt að huga að næstu skrefum í samræmi við ákvæði samkomulagsins. Niðurstöður gefa fullt tilefni til að halda áfram. Við eigum að framlengja veðurmælingar og flugprófanir eins og lagt er til. Einnig tel ég rétt að gera þær ráðstafanir að taka frá nauðsynlegt land fyrir flugvallarsvæði líkt og starfshópurinn leggur til. Óháð þessu undirbýr Veðurstofan nýtt heildarmat náttúruvár fyrir allan Reykjanesskaga. Þeirri vinnu lýkur 2026 og mun nýtast við ákvarðanir varðandi undirbúning á nýju flugvallarstæði,“ sagði Svandís.
Þríþættar rannsóknir – helstu niðurstöður
Verkefni starfshópsins vegna byggingar flugvallar í Hvassahraun var þríþætt og fólst í að rannsaka veðurskilyrði, náttúruvá og áhrif á flugstarfsemi á innanlandsflug. Helstu niðurstöður eru:
Veðurskilyrði
Veðurfarsmælingar leiddu ekki í ljós nein veðurskilyrði sem mæltu gegn byggingu flugvallar í Hvassahrauni. Þá reyndust takmarkanir vegna vinds (eða hliðarvinds), skyggnis, skýjahæðar eða ókyrrðar ekki meiri í Hvassahrauni en almennt er þekkt suðvestanlands.
Veðurstofan sá um hefðbundnar veðurmælingar í 30 m mastri og ýmsar samanburðarmælingar. Ókyrrðarmælingar voru gerðar með þremur mismunandi aðferðum, þ.e. sónískum vindmælum (VÍ), ljóssjá (VÍ, Norconsult) og flugmælingum (HR).
Náttúruvá – eldstöðvar, hraunflæði og jarðskjálftar
Rannsóknir sýna að flugvallarsvæði í Hvassahrauni er að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og líkur á gosupptökum á svæðinu eru taldar hverfandi.
Svæðið er ekki talið vera útsett fyrir hraunflæði lítilla gosa en eigi gos sér stað í eldstöðvakerfi Krýsuvíkur, næst svæðinu, benda niðurstöður til þess að líklegt sé að hluti athugunarsvæðisins verði fyrir hrauni. Líkur á því minnka þó eftir því sem norðar kemur á svæðið. Ólíklegt er að hraun renni yfir Reykjanesbrautina á þessu svæði en það er þó ekki útilokað. Hverfandi líkur eru taldar á hraunflæði frá öðrum stöðum þar sem líklegt er talið að gosop opnist.
Loks segir í skýrslunni að fullvíst megi telja að áhrif frá jarðskjálftum verði vel viðráðanleg í allri mannvirkjahönnun sem gerð yrði. Líklegast er að gasmengun verði ekki mikil á athugunarsvæðinu en að þær aðstæður geti skapast að loftgæði verði mjög óholl af völdum brennisteinsdíoxíðs að gasstyrkur fari vel yfir hættumörk. Líklegast er að gjóskufall valdi einungis skammvinnum áhrifum á athugunarsvæðið í Hvassahrauni.
Veðurstofan framkvæmdi hættumat náttúruvár, þ.e. vegna upptakasvæða eldgosa, sprungna, jarðskjálfta, hraunflæðis, öskufalls og gasmengunar.
Áhrif á flugstarfsemi
Áhrif á innanlandsflug voru metin en þar kemur fram að langtímaáhrif á eftirspurn í innanlandsflugi verði líklegast ekki mikil ef af flutningi þess verður í Hvassahraun. Talið er að langtímaáhrif á kennslu, æfinga- og einkaflug verði takmörkuð, að því gefnu að aðstaða fyrir slíkt flug verði einnig flutt í Hvassahraun. Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur er hins vegar líklegur til að hafa mikil áhrif á notkun þess.
Verkfræðistofan Mannvit og Jón Karl Ólafsson ráðgjafi lögðu mat á áhrif færslu flugstarfsemi.
Nánar á vef stjórnarráðsins með því að smella hér.