Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 6. febrúar 2001 kl. 22:02

Niðurstaða loks fengin

Vatnsleysustrandarhreppur samþykkti sl. föstudag samrunaáætlun Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnafjarðar. Þá hafa allir eigendur HS samþykkt áætlunina og verður í framhaldinu unnið að nauðsynlegum breytingum á lögunum um fyrirtækið og öðrum undirbúningi samrunans, sem stefnt er að að taki gildi hið allra fyrsta.

Tímamótaviðburður í orkumálum
Mikil fundahöld hafa verið sl. mánuð hjá sveitarstjórnarmönnum og að lokum tókst að samræma sjónarmið þeirra, þannig að Ellert bæjarstjóri Reykjanesbæjar og samstarfsmenn hans í þessu ferli gátu fundið mögulega lausn á málinu. Júlíus Jónsson forstjóri HS segir þann hóp eiga þakkir skyldar fyrir mikla vinnu. „Ljóst er að samkomulag hefði aldrei náðst nema vegna þess að allir sem að málinu komu höfðu vilja til að ná niðurstöðu og sannfæringu um að sameiningin væri heilladrjúgt spor fyrir HS og eigendur þess“, sagði Júlíus.
„Það er að sjálfsögðu mjög ánægjulegt fyrir okkur sem staðið höfum að málinu að það skuli loks komið í höfn, en það þýðir þó alls ekki að unnt sé að slaka á. Nú hefst mikil vinna til að tryggja að sameining fyrirtækjana verði sem árangursríkust til framtíðar litið. Næsta verkefnið er að fá fram nauðsynlegar breytingar á lögunum um HS og um leið þarf að ganga frá mörgum málum. Ganga þarf frá gjaldskrárbreytingu í Hafnarfirði þann 1. mars, koma á samræmdu skipuriti fyrir nýtt fyrirtæki í heild sinni og ganga frá ýmsum atriðum er snerta starfsmannamál svo sem lífeyrismál o.fl. Síðan þarf að huga að næstu skrefum í þróun fyrirtækisins eigi það að geta verið í framvarðarstöðu í orkumálum í framtíðinni en fyrst er nú að ganga frá þeim málum sem bíða úrlausnar. Ekki er endanlega ljóst á þessari stundu ljóst hver verður formlegur stofndagur sameinaðs fyrirtækis, Hitaveitu Suðurnesja hf, en það gæti tekist um næstu mánaðarmót verði vel að málum staðið“, segir Júlíus
Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS og Júlíus Jónsson óska fyrirtækinu, starfsmönnum þess og eigendum og Suðurnesjamönnum öllum til hamingju með þennan samruna og tilheyrandi breytingu á rekstrarfyrirkomulagi, sem er að þeirra mati, algjör tímamótaviðburður í orkumálum á Íslandi.


Nýtt orkuævintýri
„Ég er alsæll með þessi málalok“, sagði Þorsteinn Erlingsson eftir að niðurstaðan var ljós. „Nú eru rúmir 13 mánuðir síðan að tillagan um breytingu á rekstrarformi HS kom fyrst fram. Þá var nefnd stofnuð með eigendum HS, þ.e. sveitarfélögum á Suðurnesjum, til að kanna kosti og galla á að breyta HS í hlutafélag“, en Þorsteinn var einmitt formaður þeirrar nefndar. Hann sagði að menn hefðu í fyrstu ekki verið bjartsýnir á að þetta gengi í gegn enn 13 mánaða ferli væri alls ekki óraunhæfur tími miðað við stöðuna í upphafi. „Ég var strax mjög bjartsýnn á að þetta næðist í gegn og nú er það orðin staðreynd“, sagði Þorsteinn.
HS er fyrsta orkufyrirtækið á Íslandi sem breytt er í hlutafélag og það mun veita því vissa möguleika að mati Þorsteins. „HS fær með þessu ákveðið forskot og auðveldar einnig samstarf við önnur orkufyrirtæki. Einnig má telja víst að það hafi áhrif á skipun orkumála á Íslandi“, segir Þorsteinn.
HS er nú metin á ca. 10 milljarða króna og Reykjanesbær á 43,5% hlut, eða 4,350 milljónir kr. „Ef við gefum okkur að gengi hlutabréfa fari í 1,5 þá verður eign Reykjanesbæjar 6,525 milljónir. Ef gengi hlutabréfanna hækkar í 2, þá gera það 8,700 milljónir kr. eign fyrir Reykjanesbæ. Þetta er því ekkert smámál fyrir sveitarfélögin fjárhagslega, og þau verða að passa vel upp á eign sína í HS.“
„Þessar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi HS munu einnig auka atvinnumöguleika, flýta fyrir að orkuver rísi í Trölladyngju og atvinnustarfsemi hefjist þar. Ef til vill er þetta upphafið á nýju orkuævintýri, líkt og stofnað var til í Svartsengi fyrir 25 árum. Ég óska forstjórunum, stjórninni, starfsfólki og Suðurnesjamönnum til hamingju með þennan áfanga“, segir Þorsteinn Erlingsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024