Niðurskurður HSS verður 144 milljónir kr. á næsta ári
Útlit er fyrir mun færri uppsagnir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en í fyrstu tillögum. Óvissan er samt mikil segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri HSS.„Hins vegar er þetta ekki nóg til að bjarga sjúkrahúsinu fyrir horn,“ segir Sigríður um útlitið í rekstrinum eftir fund með Guðbjarti Hannessyni heilbrigðisráðherra og ráðgjöfum hans fyrir helgi en þar var farið yfir útfærslu á endurskoðuðum niðurskurði til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.
„Við fengum upphaflega 413 milljóna króna kröfu um niðurskurð og henni var breytt í 194 milljónir. Af þessum 194 milljónum voru síðan teknar tæpar 50 milljónir en þær færast yfir á árið 2012. Þessar 144 milljónir sem við eigum að skera niður um reynast okkur engu að síður mjög erfiðar. Það er ekki útséð með hvernig við eigum að halda sjúkrahúsrekstrinum gangandi.
Sjúkrahúsþjónustan mun mikið til hrynja, vegna þess að við erum komin að þolmörkum eftir margra ára niðurskurð,“ segir Sigríður og bendir á að ráðherra hafi gefið vilyrði um 150 milljóna kr. viðbótarframlag til reksturs 20 hjúkrunarrýma á Suðurnesjum á árinu 2011. HSS kunni að sjá um þann rekstur, ef um semjist við sveitarfélögin, segir Sigríður Snæbjörnsdóttir.