Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 2. febrúar 2000 kl. 18:06

Niðurskurður á viðbótarlánum til Reykjanesbæjar

Sveindís Valdimarsdóttir (J) lýsti áhyggjum sínum yfir þróun í húsnæðismálum á svæðinu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar s.l. þriðjudag. Fjölskyldu- og félagsmálaráð sótti um 50 viðbótarlán til húsnæðiskaupa á þessu ári, sem nema samanlagt um 75 milljónum króna en fékk aðeins 33 milljónir króna. Viðbótarlán eru veitt fólki sem á erfitt með að kaupa sér eign án aðstoðar, en lánin er á mun lægri vöxtum en önnur lán. Umsækjendum er forgangsraðað út frá fjárhags- og félagslegri stöðu. Viðkomandi þarf að vera inna tekju- og eignamarka sem félagsmálaráðuneytið setur á hverjum tíma, hafa lögheimili í Reykjanesbæ, vera ekki í vanskilum við Húsnæðisnefnd eða bæjarsjóð, skila fullnægjandi greiðslumati og að kaupverð íbúðar fari ekki yfir 9 millj. króna. Við úthlutun er sérstakt tillit tekið til barnmargra fjölskyldna, örorku og veikinda í fjölskyldum, einstæðra foreldra, þeirra sem búa í heilsuspillandi húsnæði og sérstakra fjárhagslegra aðstæðna. Sveindís benti á að þann 1. janúar hefði þegar verið búið að úthluta 22 millj. af þeim 33 millj. sem Reykjanesbær fékk til úthlutunar frá Íbúðalánasjóði. Hún sagði jafnframt að lán Reykjanesbæjar hefði verið skert hlutfallslega meira en lán til annarra sveitarfélaga. „Þetta er mjög alvarleg staða ef ekkert verður að gert“, sagði Sveindís og kom með fyrirspurn til bæjarstjóra hvort ekkert væri að frétta af viðbótarlánum. Ellert Eiríksson (D) sagði að úthlutun Íbúðalánasjóðs yrði skoðuð þegar líða færi á árið og að hann hefði fengið þau svör að viðbótarlán hefðu verið skorin niður til allra sveitarfélaga. „Við eigum möguleika á að sækja um meira þegar við erum búin að úthluta þeim 33 milljónum sem við fengum“, sagði Ellert. Böðvar Jónsson (D) benti á að Reykjanesbær hefði sótt um mun færri lán en nágrannasveitarfélögin. „Við ættum e.t.v. að vera ríflegri í umsóknum til að tryggja að við fáum það sem við þurfum“, sagði Böðvar. Hann sagði að Hafnarfjörður hefði t.d. fengið 150 lán í ár en 400 í fyrra, þannig að ljóst væri að lánveitingar hefðu verið skornar niður hjá öllum sveitarfélögum, ekki bara í Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024