Neyðarsendir skútu fannst austur af Hópsnesi
- Brak úr skútunni fannst á áttunda tímanum
Landshelgisgæslunni barst um klukkan 5 í morgun merki frá neyðarsendi franskrar seglskútu sem saknað hefur verið síðan í sumar. Einn var í áhöfn skútunnar og lagði hann af stað frá Portúgal 7. júlí og áætlaði að koma til Azoreyja 16. júlí. Ekkert hefur spurst til skútunnar fyrr en í morgun þegar neyðarboð bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Staðsetning neyðarsendisins var skammt suðvestur af Grindavík og var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang.
Áhöfn þyrlunnar fann neyðarsendinn um klukkan 6 í fjöru austur af Hópsnesi. Engin önnur merki um skútuna var að finna á vettvangi og því ákveðið að bíða birtingar með áframhaldandi leit og óskaði Landhelgisgæslan einnig eftir aðstoð björgunarsveita á svæðinu til að ganga fjörur. Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík lagði af stað til leitar á áttunda tímanum í morgun. Um klukkan 8:40 fannst brak sem talið er vera úr skútunni og verður leit haldið áfram. Þyrla Landhelgisgæslunnar er nýfarin aftur á vettvang til frekari leitar.