Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Neyðarlegur“ geirfugl á Reykjanesi
Laugardagur 4. september 2010 kl. 12:58

„Neyðarlegur“ geirfugl á Reykjanesi

Bronsstytta af geirfugli eftir bandaríska myndlistarmanninn Todd McGrain var afhjúpuð í Reykjanesbæ í gær. Styttan stendur á Valahnúki og horfir fuglinn til Eldeyjar en talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn á þeirri eyju hinn 3. júní í 1844. Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, er ekki sáttur við verkið og segir hugmyndina að því hættulega nálægt verki Ólafar Nordal frá árinu 1998, styttu af geirfugli sem stendur í flæðarmálinu við Skerjafjörð í Reykjavík og horfir í átt að hafi. »Það er náttúrlega bara neyðarlegt, burtséð frá öllu siðferði og lögum, fyrir listamann að gera eitthvað svona,« segir Hafþór um verk McGrains og greint er frá í Morgunblaðinu í dag.

Verndun náttúrunnar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

McGrain hafði lokið við styttuna þegar hann fékk upplýsingar um verk Ólafar í fyrra og segist því alls ekki vera að stæla það. Ólíkar hugmyndir búi að baki verkunum tveimur, verk Ólafar virki á sig sem ljóðrænt verk sem kallist á við hafið og sjávarföllin en geirfuglsstyttan hans, sem er hluti af stærra verkefni sem ber heitið The Lost Bird Project, fjalli um verndun náttúrunnar. Auk þess geti fólk gengið upp að verkinu og snert það á meðan það horfir til Eldeyjar. Yfirborð styttunnar sé spegilslétt, líkt og steinn slípaður af sjó og sandi. Verkið sé minnisvarði um útdauða tegund.

Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri menningarsviðs Reykjanesbæjar, segir að fulltrúar þess hafi vitað af verki Ólafar og greint McGrain frá því. »Þetta var hugsað fyrst og fremst sem umhverfisverkefni, barátta gegn því að útrýma dýrategundum,« segir Valgerður í frétt Morgunblaðsins en þar er fjallað ítarlega um þessi tvö listarverk.

Víkurfréttamynd: Ellert Grétarsson