Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Neyðarkall frá björgunarsveitum - forseti Íslands selur fyrsta neyðarkallinn
Fimmtudagur 2. nóvember 2006 kl. 19:24

Neyðarkall frá björgunarsveitum - forseti Íslands selur fyrsta neyðarkallinn

Helgina 3. – 5. nóvember munu björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar fara af stað með fjáröflun um allt land þar sem meðlimir sveitanna selja neyðarkall.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er verndari Slysavarnafélagsins Landsbjargar og mun hann leggja átakinu lið. Hann mun selja fyrsta neyðarkallinn í Smáralind, föstudaginn 3. nóvember 2006, kl. 17:00, . Fjölmiðlum er boðið að vera viðstaddir þetta upphaf átaksins en við sama tækifæri verður opnuð sýning á björgunartækjum í Vetrargarðinum.

Þrátt fyrir að meðlimir björgunarsveitanna séu allir sem einn sjálfboðaliðar er rekstur þeirra dýr. Hagnaður af sölu neyðarkallsins mun renna til sveitanna og Slysavarnafélagsins Landsbjargar og verður hann notaður til að efla og styrkja þjálfun björgunarsveitarmanna landsins.

Í gegnum tíðina hefur almenningur haft mikinn skilning á störfum björgunarsveita enda veit fólk að þegar neyðarkall berst bregðast þær hratt við með allan sinn mannskap, búnað, tækni og þekkingu.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vonast til þess að landsmenn taki meðlimum björgunarsveitanna opnum örmum og styðji þannig við bakið á fórnfúsu starfi þeirra þúsunda björgunarsveitarmanna sem eru til taks allan ársins hring þegar samborgarar þeirra þurfa á aðstoð að halda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024