Neyðarboðun ekki í samræmi við reglur
Boðunarferlið vegna Boeing-þotu breska flugfélagsins Britsh Airways, sem lenti á Keflavíkurflugvelli vegna gruns um eld í farþegarými, virðist ekki hafa verið í samræmi við verklagsreglur í slíkum tilvikum. Vanalega á Neyðarlínan að fá boð um slík tilvik beint frá flugumferðarstjórn, en í þessu tilviki fór boðunin fyrst til vaktstöðvar siglinga og síðan til lögreglu áður en Neyðarlínan fékk tilkynningu um málið og sendi þá út eitt þúsund boð með sms. Boðunin gekk eins og til var ætlast þegar Neyðarlínan sendi út sms-boðin skömmu eftir kl. 18 en ekki liggur fyrir hvers vegna fregnin barst Neyðarlínu í gegnum tvo milliliði, þ.e. vaktstöð siglinga og lögreglu. Af hálfu flugmálastjórnar fengust ekki svör þegar eftir þeim var leitað í gær.
Fundur viðbragðsaðila var haldinn á þriðjudag vegna atviksins eins og alltaf er gert í tilvikum sem þessu. Ellisif Tinna Víðisdóttir hjá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli sagði að ferlið hefði gengið vel fyrir sig en að öðru leyti sagðist hún ekki myndu upplýsa opinberlega um það sem fram færi á svona fundum.
Frétt af mbl.is
Mynd: Frá nauðlendingu vélarinnar. VF-mynd: Páll Ketilsson