Nettó opnar á morgun í Njarðvík
Nú er unnið dag og nótt við undirbúning opnunar á nýrri Nettó verslun sem leysa mun af hólmi verslun Samkaupa í Njarðvík. Nýja verslunin opnar í fyrramálið með pompi og prakt og verður mikill fjöldi spennandi opnunartilboða í gangi. Þau verða kynnt í sérstökum blaðauka sem fylgir Víkurfréttum á morgun af þessu tilefni. Með þessum breytingum verða ýmsar áherslubreytingar sem miða aðallega að því að bjóða hnitmiðað vöruúrval og lægra verð en Nettó er lágvöruverðsverslun eins og flestir vita.
Að sögn Sturlu Eðvarsspnar, framkvæmdastjóra Samkaupa er Nettó verslunin svar við kalli tímans því sú hugmyndafræði sem er að baki Nettó henti mjög vel í því árferði sem landsmenn eru að upplifa. Fólk sæki meira í lágvöruverðsverslanir en áður.
„Við viljum áfram vera öflugur þáttakandi í samkeppni hér á svæðinu og veitir ekki af. Það er okkar von að Suðurnesjamenn kunni að meta þessar breytingar og haldi áfram að styðja öflugt fyrirtæki í heimabyggð,“ sagði Sturla.
Sjá nánar í Víkurfréttum á morgun.
---
VFmynd/elg – Það var allt á öðrum endanum í gær þegar við litum við í Nettó. Iðnaðarmenn og starfsfólk á fullu við framkvæmdir og undirbúning fyrir opnunina á morgun.