Nettó með árangursríkustu markaðsherferð ársins
Kynningarherferð Nettó á netinu hlaut á föstudag Áruna, verðlaun ÍMARK fyrir árangursríkustu markaðsherferð ársins. Þar með var brotið blað í sögu ÍMARK, en aldrei áður hefur matvöruverslun hlotið árangursverðlaunin.
ÁRAN er sem áður segir, verðlaun sem veitt eru fyrir árangursríkustu markaðsherferð ársins 2018 og var herferðin unnin í samstarfi við auglýsingastofuna H:N markaðssamskipti.
„Við hjá Nettó/Samkaupum erum afar stolt af þessari viðurkenningu. Þetta er í fyrsta skipti sem verslun á matvörumarkaði hlýtur þessi verðlaun og er þetta okkur ómetanleg hvatning í þeim skemmtilegu verkefnum og áskorunum sem framundan eru,“ segir Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa.
„Tilgangur herferðarinnar var að vekja athygli á þessari nýjung á markaði en áður en við fórum af stað var ekki fordæmi fyrir lágvöruverðsverslun á matvövöru á netinu hér á landi. Herferðin endurspeglar þétt samspil endurmörkunar Nettó vörumerkisins, hefðbundinna auglýsinga og óhefðbundinna, svo sem almannatengsla og nýtingu samfélagsmiðla, auk nákvæmra mælinga yfir tímabilið sem gerir það að verkum að okkur hefur tekist að bæta okkur á réttu stöðunum.”
Áran hefur alls verið veitt 11 sinnum og er verðlaununum ætlað að beina sjónum að herferðum sem skilað hafa framúrskarandi árangri. Þetta er í sjöunda skiptið sem H:N Markaðssamskipti hlýtur Áruna.