Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nettó keyrir vörur til Grindvíkinga
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 9. janúar 2024 kl. 13:25

Nettó keyrir vörur til Grindvíkinga

Búðin í Grindavík skemmdist lítillega, viðgerðir hefjast í vikunni

Íbúum Grindavíkur stendur til boða, frá með deginum í dag, að fá heimsendingu úr netverslun Nettó til Grindavíkur. Keyrt verður með sendingar einu sinni á dag til að byrja með, en umfang verður endurskoðað í samræmi við eftirspurn. Samhliða þessu er verið að meta húsnæði Nettó í Grindavík og hefja endurbætur á þeim skemmdum sem hafa myndast undanfarna mánuði, svo hægt sé að opna verslunina á ný. 

„Við finnum fyrir auknum áhuga Grindvíkinga fyrir því að flytja aftur heim og hefja störf í Grindavík og vitum að aðgengi að matvöruverslun er lykilþáttur í samfélaginu. Okkur finnst gríðarlega mikilvægt að sinna okkar hlutverki í þeirri uppbyggingu sem framundan er og fyrsta skrefið er að bjóða upp á heimkeyrslu til Grindavíkur, segir Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó.  

„Allt okkar starfsfólk frá Grindavík hefur síðustu mánuði starfað í öðrum verslunum Nettó, en við erum vongóð að óvissan fari minnkandi og hægt verði að snúa til baka og hefja á ný eðlilegan rekstur. Þó vitum við náttúrulega ekkert hvað úr verður, en með netversluninni getum við að minnsta kosti hafið þá vegferð.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verslun Nettó í Grindavík hefur staðið auð síðan um miðjan nóvember, en ákvörðun var tekin um að loka búðinni degi fyrir rýmingu bæjarins í fyrra. Verslunin hafði þá orðið fyrir miklu tjóni þegar stærstu jarðskjálftarnir riðu yfir, og þurfti m.a. að skilja eftir stóran hluta vörulagersins með tilheyrandi birgðatjóni.  

„Við ætlum að byrja þetta svona, að keyra út einu sinni á dag og mun bíll fara frá Nettó í Krossmóa um þrjúleytið á daginn. Grindvíkingar þurfa að vera búnir að panta fyrir hádegi því það tekur tíma að taka pantanirnar saman. Svo fer þetta einfaldlega eftir eftirspurn, hversu margir munu nýta sér þjónustuna og ef það verður mikil eftirspurn, munum við fjölga ferðum en þó svo að eftirspurnin verði ekki mikil munum við samt sem áður halda okkur við þessa ferð kl. þrjú. Til að byrja með verður þetta bara virka daga en aftur, ef eftirspurnin verður þannig að við þurfum líka að keyra út um helgar, munum við gera það. Svo vonumst við auðvitað eftir að geta opnað Nettóbúðina í Grindavík sem fyrst,“ segir Heiðar.

Nettó hefur þjónustað grindvíska báta og skip að kostgæfni frá því að rýma þurfti bæinn og þar sem flest skipin hafa landað í Hafnarfirði, hefur Nettó í Selhellu á völlunum í Hafnarfirði séð um þá hlið mála. Búðin í Grindavík skemmdist aðeins og munu viðgerðir hefjast í vikunni. Heiðar gerir ráð fyrir að allt verði tilbúið eftir nokkrar vikur. „Það eru minniháttar skemmdir á húsnæðinu í Grindavík, sprungur í gólfum og veggjum og munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Við þurftum að rífa talsvert af gólfum, bæði dúka og flísar til að meta skemmdirnar og húsnæðið var metið öruggt, það mun taka okkur einhverjar vikur að laga skemmdirnar og standsetja búðina upp á nýtt og vonandi verða það margir Grindvíkingar og starfsfólk okkar, fluttir heim aftur þá svo það borgi sig fyrir okkur að opna aftur. Hugsanlega munum við opna í skrefum, hafa búðina opna ákveðið marga daga í viku en þetta verður bara allt að koma í ljós,“ segir Heiðar.

Alls voru 33 starfsmenn í Nettó áður en rýmingin átti sér stað, bæði fastráðnir og aukastarfsmenn og tókst að koma öllum í vinnu í búðum Nettó. Heiðar segir að Nettó hafi staðið með Grindvíkingum og muni gera það áfram. „Við viljum auðvitað koma Nettóbúðinni í Grindavík í gang sem fyrst. Við finnum fyrir miklum hug Grindvíkinga og pressu að auka þjónustuna og við munum auka við hana í skrefum. Við ætlum ekki að vera dragbítur á að Grindvíkingar vilji ekki flytja aftur í bæinn sinn því það getur ekki nálgast nauðsynjar. Allt okkar starfsfólk í Grindavík fékk vinnu um leið og fólkið treysti sér til og er fólkið dreift víða á landinu, einn á Hornafirði, annar á Ísafirði, einn á Selfossi en flestir á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Þegar Grindvíkingar þurftu að flýja bæinn hjálpuðum við þeim að koma sér fyrir fyrstu dagana, einhverjir fóru á hótel og svo hjálpuðum við líka fólki að komast í varanlegt húsnæði. Það var númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur að standa með fólkinu okkar og við getum ekki beðið eftir að opna búðina í Grindavík,“ sagði Heiðar að lokum.

Vörur flugu úr hillum í jarðhræringunum 10. nóvember.