Netsvikarar herja á Sigurvon í Sandgerði
Netsvikarar hafa herjað á Björgunarsveitina Sigurvon í Sandgerði í tengslum við flugeldasölu björgunarsveitarinnar. Þar á bæ var ákveðið að fara í netleik.
Netleikir, þar sem verið er að veita verðlaun, eru auðveldur vettvangur fyrir netsvikara sem útbúa Facebook-síður og stela öllum auðkennum, sem í þessu tilfelli er merki björgunarsveitarinnar og allt innihald leiksins. Það er því auðvelt að láta glepjast.
Svikahrapparnir tilkynna þátttakendum nær umsvifalaust að þeir hafi unnið vinning en þurfi að gefa upp bankaupplýsingar. Þetta eru fyrstu skrefin hjá þessum aðilum til að svíkja fé af fólki.
Það skal tekið fram að í leiknum sem Björgunarsveitin Sigurvon stendur fyrir er haft samband við vinningshafa með skilaboðum frá umsjónaraðila leiksins og ekki beðið um bankaupplýsingar.
Fólk er hvatt til að tilkynna svikasíðurnar á Facebook en þær eru a.m.k. þrjár þegar þetta er skrifað.