Netmyndavél yfir höfninni
Skemmtileg nýjung hefur litið dagsins ljós á heimasíðu Sandgerðisbæjar, en netmyndavél sem horfir yfir höfn bæjarins hefur verið gerð aðgengileg fyrir gesti síðunnar.
Reynir Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, segir framtakið hafa vakið mikla eftirtekt og viðbrögð notenda séu mjög jákvæð. „Þessi myndavél er ein sú fullkomnasta sem völ er á og heimsóknir á síðuna okkar hafa fimmfaldast eftir að hún var sett upp.“
Möguleikar vélarinar eru miklir að sögn Reynis. „Við gætum lyft vélinni hærra á vitanum og þannig látið hana snúast heilan hring og séð yfir allan bæinn, en nú erum við að fínstilla hana.“
Myndavélin er staðsett upppi á vitanum og horfir yfir höfnina og færist fram og til baka og segir Reynir að hún sé meðal annars notuð sem þjónustutæki fyrir sjómenn, sérstaklega sem eru ekki búsettir í Sandgerði en gera út þaðan. Þeir sæki myndavélina mikið til að athuga með sjólag og hvort aðrir bátar væru farnir af stað á miðin.
Mynd: Úr safni