Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nesvellir: Samningur undirritaður við Húsanes um byggingu fyrsta áfanga
Föstudagur 9. júní 2006 kl. 16:57

Nesvellir: Samningur undirritaður við Húsanes um byggingu fyrsta áfanga

Samningur við Húsanes hf um byggingu fyrsta áfanga raðhúsa á Nesvöllum, var undirritaður í dag af fulltrúum Húsaness og Nesvalla. Þegar hefur verið gerður samningur við Nesprýði ehf um gatnagerð og jarðvinnu og eru framkvæmdir við það verkefni nú þegar hafnar.

Húsanes byggir í fyrsta áfanga 19 raðhús og er gert ráð fyrir að afhending fari fram í júlí á næsta ári. Raðhúsin verða tveggja herbergja íbúðir, 95 ferm. að stærð án bílageymslu og 120 ferm. með bílageymslu. Fljótlega hefjast einnig framkvæmdir við byggingu öryggisíbúða, íbúða í fjölbýlishúsum og þjónustmiðstöð. Allar íbúðir verða leigðar út fullfrágengnar að utan sem innan. Reiknað er með að afhenda raðhús í fyrsta áfanga sumarið 2007, en öryggisíbúðir í byrjun vetrar 2007.

Á Nesvöllum eru nokkrir íbúðakostir, auk þess sem á svæðinu verður sérhannað útivistarsvæði með félags- og þjónustumiðstöð í miðdepli svæðisins. Íbúðakostir miða að því að mæta þörfum einstaklinga, eftir því sem heilsa og lífstíll þróast. Allar íbúðir verða í góðum tengslum við félags- og þjónustumiðstöð og útivistarsvæði. Í félags- og þjónustumiðstöð verður lögð áhersla á heilsurækt, tómstundir og félagslíf.

Rekstrarfélag Nesvalla mun starfrækja svæðið sem eitt svæði til þess að þjónusta íbúa á Nesvöllum og aðra eldri borgara. Reykjanesbær hefur ákveðið að starfrækja dagdvöl eldri borgara og skipuleggja tómstunda- og félagsstarf eldri borgara í þjónustumiðstöðinni og á útivistarsvæðinu. Félagsþjónusta eldri borgara mun jafnframt hafa aðsetur í þjónustumiðstöðinni, auk þess að leggja til skipulagða daglega tómstundadagskrá.

Að sögn Sigurðar Garðarssonar, verkefnisstjóra, mun félagið boða til sérstaks kynningarfundar á næstunni með þeim sem hafa áhuga á að kynna sér íbúðakosti á Nesvöllum. Þá verður verð og skilmálar leigu kynnt, ásamt nánari upplýsingum um skipulag og gæði íbúða. Eftir þann kynningarfund mun leigjendum gefast kostur á að festa sér íbúð með því að gera samning við Nesvelli.

Mynd: Frá undirritun samningsins í dag, sem markar upphaf byggingaframkvæmdanna en jarðvinna er hafin. VF-mynd: elg
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024