Nesvellir, íbúum til gæfu og gleði
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utandríkisráðherra og settur félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði gesti við formlega opnun Nesvalla. Ingibjörg Sólrún sagði í ávarpi sínu að afskaplega ánægjulegt væri að koma og sjá þessa glæsilegu aðstöðu og skoða uppbyggingu sem á sér stað í þágu aldraðra á Nesvöllum.
Hún minnti á að aldraðir væru ekki einsleitinn hópur og því væri mikilvægt að horfa til fjölbreytileikans og styrkja fólk í að njóta sín sem einstaklingar.
„Þjónusta snýst um fólk. Það er ekki nóg að byggja glæsilega aðstöðu og góðan húsakost ef ekki er tryggt að gott starfsfólk fáist til að sinna þjónustunni. Á Nesvellum væru svo sannarlega til staðar þjónusta veitt af fólki fyrir fólk. Góð tómstundaaðstaða mötuneyti og dagvist, og félagsþjónusta Reykjanesbæjar á sama stað sem og Félags- og tómstundastarf aldraðra á vegum bæjarins.“
Að lokum sagði Ingibjörg frá því að í félags- og tryggingaráðuneytinu hefði verið unnið að framkvæmdaráætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma um allt land. Í áætluninni er tekið á þörf fyrir fyrir fjölgun hjúkrunarrýma í Reykjanesbæ.