Nesskip vilja mánaðarfrest til að undirbúa brottflutning Wilsons Muuga
Nesskip hf. sem eiga flutningaskipið Wilson Muuga, sem situr enn sem fastast í Hvalsnessfjöru, sóttu í dag um mánaðarfrest til að leggja fram áætlun um framkvæmdir við að fjarlægja skipið.
Guðmundur Ásgeirsson, stjórnarformaður Nesskipa, hefur stungið upp á því að láta skipið standa þar sem það er og telur það geta dregið ferðamenn til svæðisins. Forsvarsmenn Sandgerðisbæjar vísa slíku hins vegar á bug. Í samtali við Víkurfréttir í dag sagðist Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri, ekki hafa séð erindi Nesskipa um frest, en í dag var lokafrestur til að skila áætlun um að fjarlægja skipið.
„Það er lykilatriði að við losnum við skipið sem fyrst. Við verðum með bæjarráðsfund á þriðjudag og ég býst við því að við verðum búin að fá erindið frá Nesskipum þá svo við getum tekið afstöðu til þess.“
Annars kemur fram á heimasíðu Umhverfisstofnunar að starfsmenn Umhverfisstofnunar og Olíudreifingar fóru í gær um borð í Wilson Muuga til að dæla sjó úr afturlest skipsins
Með því að lækka yfirborð í henni er vonast til að leifar af olíu sem kunna að vera í botntönkum muni spýtast upp um einstefnuloka á tönkunum inn í lestina með vaxandi straumi. Ekki er búist við að mikil olía sé þarna ennþá en þó er talin ástæða til að ganga úr skugga um það með þessari aðgerð til að draga úr hættu á að hún berist út í umhverfið. Í gær var nokkur olíubrák í lestinni.
Næstu daga verður fylgst með því hvort einhver olía kemur til viðbótar upp í lestina og verður henni þá dælt upp í tanka á þilfarinu og þaðan flutt í land með þyrlu.