Nesskip tefja brottflutning Wilsons Muuga - Bæjaryfirvöld í Sandgerði hyggja á málsókn
Bæjaryfirvöld í Sandgerði hyggjast leita réttar síns fyrir dómstólum ef eigendur Wilsons Muuga fara ekki að vinna í því að fjarlægja skipið úr Hvalsnessfjöru þar sem það hefur setið undanfarinn mánuð. Þetta staðfesti Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri, í samtali við Víkurfréttir, en Guðmundur Ásgeirsson, stjórnarformaður Nesskipa, hefur sagst einungis bera takmarkaða bótaskyldu vegna strandsins og segir lög um skipasiglingar styðja mál sitt. Umhverfisstofnun svarar með því að benda í lög gegn mengun hafs og stranda.
Samkvæmt fréttum RÚV segist Guðmundur ekki ætla að greiða nema rúmar 70 milljónir til að dæla olíu úr skipinu og fjarlægja það. Ljóst þykir að kostnaðurinn verði mun meiri, jafnvel hundruð milljóna.
„Það er nokkuð ljóst í okkar huga,“ segir Sigurður Valur, „…að ef þetta er rétt, þá munum við fá lögfræðing til starfa til að verja okkar hagsmuni, sem er lífríkið eins og það leggur sig. Fjaran er á náttúruminjaskrá, þetta er viðkomustaður fugla og við teljum að þetta geti ekki á nokkurn hátt fengið að vera áfram í fjörunni. Við munum berjast fyrir því að Umhverfisstofnun sjái til þess að þetta verði fjarlægt,“ segir Sigurður Valur
Sigurður bætir því við að ljóst sé að með þessu útspili Guðmundar og Nesskipa verði óumflýjanlega tafir á brottflutningi skipsins. „Það er búið að veita honum viðbótarfrest til mánaðarmóta til að skila Umhverfisstofnun áætlun um hvernig hann hyggst fjarlægja skipið og á meðan við heyrum í hvorugum aðilanum erum við að undirbúa málsókn á hendur Nesskipum. Við verðum að tryggja það að skipið verði fjarlægt.“
VF-mynd/Þorgils