Nesfiskur grípur til hópuppsagnar og kannar réttarstöðu sína
Á fundi stjórnar Nesfisks hf. í gær, þann 21. nóvember 2018, var tekin sú erfiða ákvörðun að grípa þyrfti til hópuppsagnar á starfsmönnum sem starfa við heitloftsþurrkun Nesfisks að Iðngörðum í Garði. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður félagsins, sendi til Víkurfrétta. Þá íhugar fyrirtækið réttarstöðu sína vegna þeirrar flóknu stöðu sem upp er komin í tengslum við starfsemina. „Hvort þessar tafir og óvissa með framvindu málsins sé komin til vegna framgangs sveitarstjórnarmanna í Garði, síðar sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis, skal ósagt látið,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins.
„Ákvörðunin er tekin af þeirri ástæðu að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur ekki enn afgreitt og gefið út starfsleyfi fyrir heitloftsþurrkun Nesfisks þrátt fyrir að heilbrigðisnefnd svæðisins hafi á fundi sínum 1. nóvember sl. tekið þá ákvörðun að veita skyldi tímabundið starfsleyfi til 31. maí 2019. Nesfiskur hefur þegar greitt fyrir starfsleyfið í formi heilbrigðis- og mengunareftirlitsgjalds og því kemur þessi staða fyrirtækinu mjög á óvart,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir: „Sú nýlunda virðist hafa skapast í framkvæmd Heilbrigðiseftirlitsins að auglýsa þurfi endurútgefin starfsleyfi,sem er ekki í samræmi við áralanga framkvæmd eftirlitsins. Að minnsta kosti þrjú samskonar starfleyfi sem útgefin hafa verið og eru gildandi í dag fóru aldrei í gegnum sambærilegt ferli. Meðal annars vegna framangreinds íhugar Nesfiskur nú réttarstöðu sína vegna þeirrar flóknu stöðu sem upp er komin í tengslum við starfsemina. Hvort þessar tafir og óvissa með framvindu málsins sé komin til vegna framgangs sveitarstjórnarmanna í Garði, síðar sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis, skal ósagt látið“.
Í tilkynningu Nesfisks ehf. segir að þær uppsagnir sem nú koma til framkvæmda ná til 20 starfsmanna. Nesfiskur hefur haldið öllum starfsmönnum á launaskrá fram til þessa þrátt fyrir að óvissa hafi verið uppi frá því í vor hvort starfsleyfið yrði veitt eða ekki.
„Eins og fram kom hér að ofan hefur Heilbrigðisnefnd Suðurnesja þegar tekið ákvörðun um að starfsleyfið skuli veitt en það hefur enn ekki gengið eftir vegna tafa á framkvæmd við útgáfu þess. Ekkert liggur fyrir um það í dag hvort eða hvenær starfsleyfið verður gefið út og er Nesfiski því nauðugur sá kostur að grípa til þessa þungbæra úrræðis. Nesfiskur harmar þá stöðu sem upp er komin en fyrirtækið skoðar nú möguleika á útvega hluta af starfsfólkinu önnur störf innan fyrirtækisins,“ segir Einar Oddur Sigurðsson lögmaður Nesfisks ehf. í tilkynningunni.