Nesfiskur að kaupa Garðvang
- Breyta í íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk
Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Nesfiskur í Garði er að kaupa Garðvang, þar sem Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum, DS, rak áður hjúkrunarheimili. Garðvangi var lokað í mars árið 2014 og heimilisfólk flutti á Hrafnistu í Reykjanesbæ. Nesfiskur hefur hug á að breyta Garðvangi í íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk fyrirtækisins.
Tilboð Nesfisks í Garðvang var samþykkt í gær í stjórn DS. Þá liggur fyrir að öll fjögur aðildarsveitarfélög Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum eru að samþykkja kauptilboðið í þessari viku. Þannig var haldinn aukafundur í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs í gærkvöldi þar sem kaupin voru samþykkt.
Fjögur sveitarfélög á Suðurnesjum; Reykjanesbær, Sandgerði, Garður og Vogar, standa að DS. Þau eru nú í ferli sem gengur út á að slíta DS og er sala á Garðvangi liður í því ferli. Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum hafa ekki lengur rekstur með höndum eftir að Garðvangur verður seldur. Eftir stendur að Hlévangur er í eigu DS og þar rekur Hrafnista hjúkrunarheimili með samningi við DS. Með því að Nesfiskur kaupir Garðvang þarf Sveitarfélagið Garður að gera breytingu á deiliskipulagi á svæðinu því gert er ráð fyrir opinberri starfsemi í húsinu skv. skipulaginu.