Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 8. ágúst 2000 kl. 13:24

Nesbú færir út kvíarnar

Feðgarnir Jón Ólafsson og synir hans, Björn, Kristinn Gylfi, Ólafur og Jón Bjarni keyptu eggjabúið Nesbú á síðasta ári. Nú hafa þeir ákveðið að færa út kvíarnar og hafa byggt nýtt 700 m2 fuglahús sem inniheldur 15.000 hænur og er heildarfjöldinn orðinn 62.000 fuglar. Búið er því orðið stærsta eggjabú landsins. Nýjar og fullkomnar eggjapökkunarvélar hafa verið keyptar, en þær eru mjög afkastamiklar og því hefur geymslu- og lagerrými verið stækkað. Í Vogum á Vatnsleysuströnd hefur verið útungunarstöð búsins til margra ára, en nú hefur verið ákveðið að færa stöðina milli húsa, frá Iðndal 15 í Iðndal 23, en þar er verið að byggja nýtt húsnæði. Iðndal 15 verður í kjölfarið breytt í fullkomna eggjavinnslu, en þar verða vélar sem sjóða og afhýða harðsoðin egg fyrir fyrirtæki. Einnig eru nýkomnar til landsins vélar sem skilja að rauður og hvítur í eggjum og gerilsneyða, ásamt möguleika á íblöndunarefnum, s.s. salti og sykri. Að sögn Björns Jónssonar, eins eigenda Nesbús, er þetta mjög viðkvæmt ferli, en þessar afurðir hafa hingað til verið keyptar erlendis frá og því stór markaður sem búið bindur vonir við hérlendis. Ráðinn hefur verið nýr framleiðslustjóri við eggjavinnsluna, Valdimar Antonsson, mjólkurtæknifræðingur, en hann hefur m.a. unnið hjá danska fyrirtækinu sem selur vélarnar til Nesbús. Valdimar hefur mikla þekkingu og reynslu á vinnslufyrirkomulaginu sem Nesbú er nú að taka upp.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024