Neptúnus dreginn af strandstað
Nótaskipið Neptúnus ÞH 361 strandaði rétt utan við höfnina í Grindavík um kl. 11:45 í morgun. Þoka og súld var á staðnum þegar skipið fór austur úr innsiglingunni og strandaði á grynningum við Boðann. Björgunarbáturinn Oddur V. Gíslason náði Neptúnusi aftur á flot um klukkan hálfeitt og er hann lagstur að bryggju. Þó nokkur átök þurfti til að ná skipinu af strandstað. Ljósmyndari Víkurfrétta fylgdist með björgunaraðgerðum úr fjöruborðinu í Hópsnesinu. Fyrst reyndi hafnsögubáturinn Villi að draga skipið, en það var ekki fyrr en Oddur V. Gíslason togaði af miklu afli að Neptúnus losnaði.Í fyrstu atrennu við að draga Neptúnus af strandstað slitnaði dráttartaug en hann náðist á flot í seinni atrennu, segir á vefsíðu Morgunblaðsins. Neptúnus strandaði um 300 m frá grjótgarðinum við höfnina. Skipið var á leið til hafnar þegar óhappið varð. Skipverjar eru ómeiddir.
Að sögn Birkis Agnarssonar hjá björgunarsveitinni Þorbirni var lítil sem engin hætta á ferðum þar sem vindur er hægur og lítill sjór.
Kafarar eru nýkomnir á staðinn og búa sig undir að kafa undir skipið til að kanna hvort gat hafi komið á skipsskrokkinn.
Neptúnus var á leið til hafnar í Grindavík með kolmunna að austan.
Að sögn Birkis Agnarssonar hjá björgunarsveitinni Þorbirni var lítil sem engin hætta á ferðum þar sem vindur er hægur og lítill sjór.
Kafarar eru nýkomnir á staðinn og búa sig undir að kafa undir skipið til að kanna hvort gat hafi komið á skipsskrokkinn.
Neptúnus var á leið til hafnar í Grindavík með kolmunna að austan.