Nemendur tala 25 tungumál
- Fjölbreytileikinn ráðandi í Myllubakkaskóla
Fjölbreytileikinn er allsráðandi í Myllubakkaskóla þar sem einn þriðji hluti nemenda er af erlendum uppruna. Samtals tala nemendur skólans 25 tungumál. „Hér eru töluð mörg tungumál og það er dásamlegt. Hjá okkur er mikil fjölbreytni sem gefur lífinu lit,“ segir Bryndís Guðmundsdóttir, skólastjóri Myllubakkaskóla.
Í skólanum eru börn sem eiga uppruna sinn að rekja til Rússlands, Póllands, Bandaríkjanna, Kanada, Indlands, Kirgistan, Taílands og fleiri landa. Flestir erlendu nemendanna eru af pólskum uppruna.
Þegar nemendur af erlendum uppruna hefja nám við Myllubakkaskóla er haldinn fundur með foreldrum þar sem túlkur er viðstaddur. Svo er nemendum sýndur skólinn og farið er yfir helstu áherslur í skólastarfinu. Nemendur eru meira og minna inni í sínum bekk en aðlögun er einstaklingsmiðuð. Lögð er áhersla á kennslu í orðaforða til að nemendur geti bjargað sér. „Um daginn hafði kennari til dæmis útbúið möppu með myndum af öllum í bekknum og kveðjum fyrir nýjan nemanda sem hann fékk áður en hann hóf fyrsta skóladaginn. Þá þekkti hann bekkjarfélagana í sjón og var fljótari að læra nöfnin. Núna er þessi nemandi orðinn einn af hópnum þrátt fyrir að hafa komið til okkar fyrir aðeins nokkrum vikum.“ Bryndís segir börnin í Myllubakkaskóla vön því að í skólanum séu nemendur af ýmsum uppruna og því sé það hið eðlilegasta mál.
Mörg barnanna eru fljót að læra íslensku en eins og gengur og gerist eru þau misfljót. „Sum læra íslensku á mjög stuttum tíma þegar önnur taka lengri tíma, tungumál liggja misvel fyrir fólki. Nemendum af erlendum uppruna gengur mörgum mjög vel í námi og ná að aðlagast íslensku samfélagi vel.“ Bryndís segir afar mikilvægt að bera virðingu fyrir móðurmáli barnanna. Nú er til skoðunar hjá Reykjanesbæ að bjóða nemendum af erlendum uppruna upp á kennslu í móðurmáli sínu. „Því betri sem börn eru í sínu móðurmáli því betur gengur þeim að læra ný tungumál.“
Á dögunum voru fjölmenningardagar í Myllubakkaskóla þar sem allir nemendur teiknuðu sína fána og kynntu sína menningu. „Það er mjög gaman fyrir nemendur af erlendum uppruna að kynna sína menningu og sömuleiðis fyrir íslensku nemendurna að læra um menningu annarra. Við erum öll hluti af þessu samfélagi og hjálpumst að við að láta öllum líða vel.“ Aðspurð segir Bryndís ólíkan uppruna nemenda alveg örugglega gera kennsluna meira krefjandi fyrir kennara, þeir þurfi að vera sveigjanlegir og stunda einstaklingsmiðaða kennslu. Starfið gangi þó mjög vel enda séu kennararnir komnir með mikla reynslu. „Þeir eru svo færir að þetta virðist ganga eins og smurð vél.“
Þessir nemendur sungu afmælissönginn á pólsku fyrir afmælisbarn frá Kirgistan.
„Góðan daginn“ á ýmsum tungumálum.
Litrík hurð hjá 1. bekk Myllubakkaskóla.
Nemendur 5. M.E. tala 8 tungumál.