Nemendur Grunnskóla Grindavíkur tóku þátt í Nordens dage
- Tala dönsku, sænsku og norsku við jafnaldra sína á Norðurlöndunum á netinu
Níundi bekkur Grunnskóla Grindavíkur tók þátt, einn af þremur skólum á landinu, í Norræna verkefninu Nordens dage dagana 22.-24. nóvember. Verkefnið er styrkt og stjórnað er af Nord-plus, Norræna ráðinu og fleiri aðilum. Verkefnið gengur út á að nemendur frá öllum Norðurlöndunum hafa samskipti sín á milli, búa til kynningarmyndbönd, vinna verkefni og tala saman á samskiptaforritinu Hangout á netinu þar sem hver hópur er með aðgang í gegnum Google +.
Nemendur spila Kahoot.
Nemendur kynnast jafnöldrum sínum á hinum Norðurlöndunum og nota til tjáskiptanna skandinavísku málin dönsku, sænsku og norsku. Á þremur dögum eru nemendur einungis í þessum verkefnum á skólatíma og á lokadeginum spila þeir samtímis með hinum skólunum spurningaleikinn Kahoot og vakti sú keppni mikla lukku hjá bekkjunum tveimur.
Spjallað við aðra nemendur á dönsku.
Þessir sömu nemendur tóku þátt í sambærilegu verkefni í fyrra og vegna þess hve vel tókst til var ákveðið að taka þátt aftur í ár.
Valdís og Arna, umsjónarkennarar 9. bekkja.
Gaman er að geta þess að Marianne Scöttel, sem nú er gestakennari í dönsku í skólum Reykjanesbæjar, fékk áhuga á Íslandi vegna þátttöku og samstarfs hennar í verkefninu í fyrra. Dönskukennararnir Arna Guðmundsdóttir og Valdís Kristinsdóttir sóttu undirbúningsnámsskeið í Danmörku í haust og stýrðu verkefninu í samstarfi við kennara á hinum Norðurlöndunum. Þær voru ánægðar með hversu ánægðir, glaðir, virkir og áhugasamir nemendur voru þessa daga.