Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja sigruðu HR-áskorunina
Fjórir nemendur við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sigruðu í HR-áskoruninni, hönnunarkeppni tækni- og verkfræðideildar HR, sem fram fór í húsakynnum skólans á laugardag. Keppnin er fyrir framhaldsskólanema.
Vegleg verðlaun voru í boði og fengu sigurvegararnir niðurfelld skólagjöld í eina önn í HR. Auk þess fengu þeir samtals 150 þúsund krónur í peningaverðlaun.
HR-áskorunin er haldin árlega og nú fólst hún í því að hanna og smíða eggjavörpu. Varpan átti að geta kastað eggi frá vítalínu körfuboltateigs í gegnum körfuna þannig að það lenti óbrotið á gólfinu.
Sex lið tóku þátt í úrslitakeppninni og er skemmst frá því að segja að þrjú þeirra náðu að leysa verkefnið af hendi. Egg sigurliðsins lenti hins vegar næst viðmiðunarpunkti beint undir körfunni. Það lið skipa þeir Bjarni Rúnar Rafnsson, Andri Björn Tryggvason, Hafsteinn Fannar Barkarson og Stefán Már Jónasson.
Í öðru sæti varð lið nemenda við Tækniskólann en það lið skipa þeir Valur Þór Sigurðsson og Brynjar Freyr Steingrímsson. Í þriðja sæti varð lið nemenda á frumgreinasviði HR en það lið skipa þeir Ívar Örn Arnarsson, Grétar Örn Ómarsson og Stefán Geir Reynisson.
Gunnar Guðni Tómasson, forseti tækni- og verkfræðideildar, afhenti verðlaunin og viðurkenningarskjal.
Frétt og mynd af vef Háskólans í Reykjavík.