Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Neita að ræða samninga og skelltu á blaðamann
Þriðjudagur 2. ágúst 2005 kl. 20:36

Neita að ræða samninga og skelltu á blaðamann

Forsvarsmenn fyrirtækisins True North, sem eru m.a. umboðsaðili kvikmyndarinnar Flags of our fathers, skelltu á blaðamann Víkurfrétta þegar spurst var fyrir um verksamninga sem aukaleikarar í kvikmyndinni hafa gert við Eskimo Group ehf.

Sögðu þeir Víkurfréttum að þeir vildu ekki tjá sig í fjölmiðlum og þegar blaðamaður spurðist fyrir um þann sem gæti rætt um þessa samninga var símtalinu lokið og skellt á. Einnig var haft samband við Eskimo Group ehf. sem er íslenskt fyrirtæki sem starfar í Reykjavík en þar á bæ vildu menn ekki heldur ræða við fjölmiðla um þessi mál. Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu þó að það væri ekki sitt hlutverk að fræða hugsanlega aukaleikara um þá ábyrgð og vinnu sem það tæki að sér við undirritun samningsins.

Guðjón Arngrímsson, varaformaður Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur, sagði í samtali við Víkurfréttir að umræddur samningur væri óhugnanlegur samningur og ekki í takt við neitt sem ætti að teljast eðlilegt í þessu þjóðfélagi. „Vonandi að myndin sé ekki jafn slæm og samningurinn. En fólk getur leitað til okkar ef það vill reyna losna undan þessum samningi en við viljum biðja fólk að vara sig á þeim.“

Randver Þorláksson, formaður Félags íslenskra leikara, telur þennan samning fráleiddan: „Að bera ábyrgð á hlutum og búningum er út í hött. Þetta er forkastanlegt og hvet ég krakkana til að taka þetta ekki að sér og rifti þessum samningum.“

Hann sagði einnig að hann myndi kynna sér málið á næstu dögum.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 nú undir kvöld að allir aukaleikarar í kvikmyndinni gætu hætt við og rift samningum að sögn forsvarsmanna Eskimo Group ehf. og er þess vegna búist við því að töluverður hópur fólks sem nú þegar hefur skrifað undir samningana hætti við að leika í kvikmyndinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024