NEFSKATTURINN INNHEIMTUR NÆSTU ÁRATUGINA
Á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar þann 15. desember sl. var álagning sveitarsjóðsgjalda fyrir árið 1999 til umræðu. Lagt er til að útsvarið verði áfram það sama eða 11.79% en gert er ráð fyrir að staðgreiðsluskyldar tekjur hækki að meðaltali um 6.5% og muni það auka tekjur bæjarsjóðs um 100 milljónir króna á næsta ári.Fasteignaskattur á íbúðir verður sá hinn sami en hækkar á atvinnuhúsnæði um tæp 40% eða úr 1.20% í 1.65%. Þá verður einnig sett á nýtt aukavatnsgjald á atvinnuhúsnæði og verða innheimtar 5 krónur fyrir hvert tonn vatns en vatnsskattur, holræsagjald og lóðarleiga haldast óbreytt. Sorphirðugjald fer úr 2.500 í 3.500 krónur og gjald vegna hreinsunar á fráveituvatni verður innheimt líkt og undanfarin tvö ár en það er 6.000 krónur á húsnæði.Það var einkum það síðastnefnda sem bæjarstjórnarfulltrúar veltu sér upp úr á fundinum en minnihlutinn sat hjá í atkvæðagreiðslunni og hugðist koma með breytingartillögur í því máli sem og varðandi sorphirðuna. Töldu þau ósanngjarnt að allir borguðu sama gjald í fráveitumálum án tillits til stærðar húsnæðis og vægi þetta þungt í pyngju þeirra sem minna mættu sín.Einnig spurðust minnihlutinn fyrir hversu lengi ætti að borga þennan skatt, því miðað við 25 milljón króna tekjur á ári, tæki það tugi ára að greiðafyrir þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í fráveitumálum í Njarðvík og Keflavík en samanlagður kostnaður vegna þeirra liggur á bilinu 480-500 milljónir króna. Bæjarstjórinn gaf þau svör að ríkið tæki þátt í stofnkostnaði slíkra framkvæmda og greiddi fimmtung á móti bænum en nefskatturinn svokallaði yrði áfram lagður á bæjarbúa og tekjurnar lagðar í sérstakan framkvæmdasjóð en ekki í bæjarsjóð.