Nef og kinnbein brotnuðu við handtöku
Tvítugur maður kinnbeinsbrotnaði, nefbrotnaði, tennur losnuðu í munni hans og bein í olnboga brotnaði þegar hann var handtekinn af lögreglu í Reykjanesbæ á fimmtudagskvöldið.
DV segir frá málinu í dag en þar kemur fram að maðurinn hafi komið akandi að þar sem víkingasveitin hafði lokað götu vegna þess að maður hafði læst sig með haglabyssu inni á salerni á heimili sínu. Maðurinn á bílnum var á leið í næsta hús, þar sem faðir hans á heima. Í blaðinu kemur fram að hann hafi átt í orðaskiptum við lögreglu og síðan rifinn út úr bílnum og keyrður niður í götuna og handjárnaður með þeim afleiðingum sem að ofan greinir.
DV segir að faðir mannsins hafi staðið hjá, inni á lóð sinni, og gert athugasemdir við aðfarir lögreglunnar. Lögregla hafi þá elt hann inn á heimilið og handtekið hann eftir að hafa spreyjað hann og eiginkonu hans með piparúða. Hann var hafður í haldi á lögreglustöð í 2 klukkustundir.
Feðgarnir hafa ráðið sér lögmann til að kanna möguleika á málsókn.