Nauðlent með blæðandi franska flugfreyju í Keflavík
Boeing 777 breiðþota með 440 farþega innanborðs nauðlenti í Keflavík á ellefta tímanum í kvöld með slasaða flugfreyju um borð. Farþegaþotan, sem er frá Air France, var á leið frá Frakklandi til Bandaríkjanna en suður af landinu fékk ein af flugfreyjunum um borð þungt högg á höfuðið og hlaut hún miklar blæðingar. Tók flugstjórinn því til þess ráðs að stefna á Keflavík þar sem læknir og sjúkralið biðu vélarinnar. Ákveðið var að gera að meiðslum flugfreyjunnar með því að sauma skurðinn um borð í þotunni á meðan hún beið á flughlaðinu við Leifsstöð. Vélin átti síðan að halda áfram vestur um haf um leið og blæðingin hafði verið stöðvuð.
Myndir:
Sjúkraliðar og læknir á leið um borð í þotuna á Keflavíkurflugvelli í kvöld.
Þota Air France er engin smásmíði, en um borð voru 440 manns á leið til Bandaríkjanna.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson