Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Náttúran er illa fyrirsjáanleg
Víðir Reynisson sviðsstjóri Almannavarna.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 6. nóvember 2023 kl. 17:38

Náttúran er illa fyrirsjáanleg

„Við gerum okkur fulla grein fyrir alvöru hamfara líkt og þeim sem búast má við á Reykjanesskaganum. Viðbúnaður núna miðast við að einhverjar klukkustundir gefist til að bregðast við ef merki koma fram um að kvika sé á leiðinni til yfirborðs. Allan sólarhringinn eru mælitæki vísindafólks vöktuð. Hættumat almannavarna og vísindafólks er uppfært að minnsta kosti einu sinni á sólarhring og oftar þegar öflugar hrinur eru í gangi. Núna erum við með viðbúnað almannavarna á óvissustigi, sem er fyrsta stigið af þrem,“ sagði Víðir Reynisson sviðsstjóri almannavarna á upplýsingafundi sem Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðaði til í dag.

Víðir sagði á fundinum að Almannavarnir hafi notað reynsluna af þremur gosum á Reykjanesskaga 2021, 2022 og 2023 til að vinna að áætlunum um vernd byggðar og einnig mikilvægra og ómissandi innviða en jarðhræringar á Reykjanesskaganum byrjuðu í árslok 2019 og hefur undirbúningur staðið yfir frá því í ársbyrjun 2020. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við vitum líka að ekki verður allri ógn varist og því mikilvægt að strax í janúar 2020 voru útbúnar áætlanir um að forða almenningi, og þá sérstaklega þeim sem búa næst núverandi umbrotasvæði frá þessum hættum. Gerðar hafa verið rýmingaráætlanir og þær uppfærðar reglulega með aukinni þekkingu á eðli eldgosanna og ekki síst tilfærslu á þeirri virkni sem nú hefur raungerst“. 

Víðir sagði á fundinum að á þessum tíma hafa umfangsmiklar greiningar verið gerðar á hvað gæti verið í hættu og ýmsar sviðsmyndir unnar með hermun hraunflæðis í samstarfi fjölda vísindamanna og annarra sérfræðinga. 

„Við gerum okkur líka grein fyrir að náttúran er illa fyrirsjáanleg og því mikilvægt að horfa sífellt til þess að næstu atburðir geta verið með allt öðrum hætti en þeir sem við höfum reiknað með hingað til. Því hefur almannavarnakerfið unnið gríðarlega mikla vinnu í að samþætta og samhæfa alla þá sem hafa hlutverki gætu gegnt í hamförum. 

Það er okkar mat að við séum ágætlega undirbúin og verðum betur undirbúin með hverjum deginum sem líður. Auk rýmingaráætlana til að tryggja öryggi fólks hefur áherslan verið á þá þætti sem teljast ómissandi mikilvægir innviðir og þar á ég bæði við heitt og kalt vatn, rafmagn, samgöngur, fjarskipti og fleira.“