Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nasavængur með hjálpardekk
Mánudagur 9. apríl 2012 kl. 15:20

Nasavængur með hjálpardekk


Nokkuð sérstök flugvél frá bandarísku geimferðastofnuninni, NASA, hefur haft aðstetur á Keflavíkurflugvelli frá því um síðustu mánaðarmót. Vélin er sérstök útlits og eru það helst stórir vængir vélarinnar sem vekja athygli og þar sem vélin er þróuð af NASA hafa gárungarnir talað um „NASA-vængi“. Þá vekur hjólabúnaður vélarinnar einnig athygli. Eitt hjólastell er undir miðri vélinni og svo eitt stoðhjól nærri stéli vélarinnar. Þá hefur hún nokkurs konar hjálpardekk á vængjum. Það er því mikil nákvæmni sem þarf þegar vélinni er lent. Hjólabúnaðinn má sjá á meðfylgjandi myndum sem ljósmyndari Víkurfrétta tók í gær þegar vélin kom inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli.

Rannsóknarflugvél NASA Earth Resources (ER-2) kom til Keflavíkur um síðustu mánaðarmót eins og áður segir en flugvélin er sérhönnuð til að fljúga í hárri lofthæð og útbúin fullkomnum mælitækjum. Vélin mun dvelja á Íslandi í mánuð og sinna rannsóknum í mikilli lofthæð yfir Grænlandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmiðið með veru vélarinnar hér á landi er að mæla nákvæmni nýlega þróaðs mælitækis sem nefnist MABEL (Multiple Altimeter Beam Experiment Lidar). Mælingarnar eru hluti af þróunarferli sambærilegs mælitækis er verður hluti af IceSat-2, gerfihnetti frá NASA sem verður loftsettur árið 2016 og er ætlað að fylgjast með umhverfis- og loftslagsbreytingum. 

Verkefnið mun styðja við rannsóknir á loftlagsbreytingum með þróun betri aðferða við að mæla bráðnun heimskautaíss.

 
Flugvélin er gerð út frá Rannsóknarflugsetri NASA í Edwards, Kaliforníu. Flugmaður vélarinnar er Timothy L. Williams, reyndur flugmaður sem starfaði lengi hjá Flugher Bandaríkjanna.


VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson