Nanna Kristjana ráðin í starf framkvæmdastjóra Keilis
Nanna Kristjana Traustadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Keilis. Nanna hefur lokið M.Sc. gráðu í tvíþættu kandidatsnámi með efnafræði sem aðalgrein og sálfræði sem aukagrein frá Aalborg Universitet í Danmörku. Hún er auk þess með viðbótardiplómu í kennslufræðum frá Háskóla Íslands og réttindi til að starfa sem grunn- og framhaldsskólakennari.
Nanna býr yfir fjölþættri reynslu af nýsköpun í skólastarfi og stjórnun. Hún hefur starfað frá 2019 sem forstöðumaður stúdentsbrauta hjá Keili og skólameistari Menntaskólans á Ásbrú. Hún hefur verið settur framkvæmdastjóri Keilis frá ágúst 2021 vegna leyfis fráfarandi framkvæmdastjóra. Við Menntaskólann á Ásbrú sá hún um undirbúning og hönnun námskrár vegna nýrrar stúdentsbrautar í tölvuleikjagerð. Áður starfaði Nanna sem kennsluráðgjafi á kennslusviði við Háskólann í Reykjavík og við Tækniskólann sem verkefnisstjóri. Þar sá Nanna um undirbúning nýrrar námsbrautar, K2 sem er tækni- og vísindaleið við Tækniskólann. Nanna hefur einnig starfað sem fagstjóri og kennari í náttúrufræðigreinum bæði í Garðaskóla og Öldutúnsskóla og sem kennari við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði.
Keilir miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er leiðandi og framsækið menntafyrirtæki á Suðurnesjum. Keilir hefur það að markmiði að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Keilir skiptist í fjóra sérhæfða skóla sem innihalda fjölbreytt námsframboð þar sem áhersla er á að laga sig að þörfum og kröfum nútímanemenda. Skólarnir eru Háskólabrú, Flugakademía Íslands, Menntaskólinn á Ásbrú og Heilsuakademía. Keilir starfar samkvæmt þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið um kennslu á framhaldsskólastigi
Jón B. Stefánsson formaður stjórnar Keilis:
„Það var mjög góð samstaða um ráðninguna í stjórn Keilis eftir yfirgripsmikið umsóknarferli sem stýrt var af Hagvangi. Nanna býr yfir mikilli reynslu af nýsköpun og stjórnun í skólastarfi og væntir stjórn góðs samstarfs við hana við áframhaldandi uppbyggingu Keilis.
Nanna Kristjana:
„Keilir hefur heillað mig sem vinnustaður síðastliðin ár og hefur þróttmikið starfsfólk gefið mér innblástur til þess að taka þátt í að byggja upp það góða samfélag sem er við lýði þar. Ég tel það mikið tækifæri að leiða þróun á þessum frábæra vinnustað, og um leið skapa nemendum farsæla framtíð í framhaldsnámi og/eða atvinnulífinu. Í starfi framkvæmdastjóra Keilis sé ég fyrir mér að skapa einingu sem aðrar menntastofnanir líta til hvað varðar starfsumhverfi, þjónustulund, metnað, framsýni, rekstur og jákvæðan starfsanda. Ég er full tilhlökkunar fyrir því að taka við keflinu og taka næstu mikilvægu skref til framtíðar hjá Keili.“