Nánast óþarfi að skrá litlar eignir á sölu
Markaðurinn á Suðurnesjum að taka vaxtakipp sem hann átti inni
„Suðurnes eru mesti vaxtarsproti Íslands um þessar mundir og fólk mun flykkjast hingað frá höfuðborginni,“ segir Páll Þorbjörnsson, eigandi og framkvæmdastjóri Allt fasteigna. Hann segir að tími hafi verið til kominn að markaðurinn á Suðurnesjum tæki við sér. „Markaðurinn hér á Suðurnesjum er að taka vaxtakipp sem hann átti inni. Stöðugleikinn í atvinnulífinu er orðinn frábær, hann var það ekki. Viðhorfið hjá fólkinu sem býr hérna er orðið annað. Þeir sem eru að sækja á þennan markað er fólk sem er að byrja að búa, erlent fólk og fólk sem er að koma úr Reykjavík sem vill meiri lífsgæði,“ segir Páll en Allt fasteignir hafa verið starfandi í Grindavík frá 2011 en komu til Reykjanesbæjar síðasta haust.
Páll segir að byggð á svæðinu eigi eftir að vaxa og dafna en hann setur spurningamerki við hvenær hátindi í íbúðaverði verður náð. Ódýrar og minni eignir eru gríðarlega vinsælar að sögn Páls. „Eignir sem eru undir 25 milljónum, það er nánast óþarfi að skrá þær á sölu. Þær fara það fljótt.“
Fólk flyst líka talsvert hingað af höfuðborgarsvæðinu og er þá að sækjast í að stækka við sig. „Það er kannski að leita í að fara úr blokkaríbúð og fara þá í raðhús. Það þarf ekkert endilega að eiga skylt við að fólk sé að vinna á flugvellinum. Fólk er bara að finna sitt eigið athvarf. Fólk er líka jafnvel að minnka við sig. Þetta er engin ein týpa af fólki en við munum sjá það á næstu mánuðum að ungt fólk mun sækja hingað meira.“
Eftir langan tíma þar sem ekki hefur verið sóst eftir lóðum í Grindavík er markaðurinn þar loks að taka við sér að mati Páls. „Staðan í Grindavík er þannig að það eru varla eignir til sölu. Það eru til mjög ódýrar eignir og svo mjög dýrar eignir. Á dögunum var verið að úthluta lóðum en það er langt síðan það gerðist síðast. Nú er mikil vitundarvakning og verktakar af höfuðborgarsvæðinu að koma til þess að byggja í Grindavík,“ segir Páll.
Hann telur að íbúafjölgun muni halda áfram en það sé spurning um hvort verðlagið haldi sér. „Við erum búin að fara ansi skart á síðustu tólf mánuðum. Hækkun á húsnæðisverði var í kringum 20 til 25% frá janúar til september 2016. Frá nóvember og til dagsins í dag er svo 10% hækkun þannig að hvort fermetraverð fari að halda jafnvægi er ótrúlega erfitt að segja.“