Nám í flugvirkjun hefst hjá Keili
Air Service Training Ltd. (AST) í samstarfi við Keili áætla að hefja nám í flugvirkjun í febrúar/mars næstkomandi og hefur undirbúningur Keilis og AST staðið yfir undanfarna mánuði. Um er að ræða samstarfsverkefni AST og Keilis þar sem AST mun setja upp útibú frá skóla sínum í Perth í Skotlandi hjá Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Um er að ræða tæplega tveggja ára samþykkt nám fyrir flugvirkja „Approved IR Part 66 Category B“ sem er bóklegt og verklegt iðnnám flugvirkja . Námið fer fram á ensku, þó að flestir kennarar verða íslenskir, því hefur AST ráðið og þjálfað íslenska kennara til kennslu fyrir starfsemi sína á Íslandi, enda ber AST faglega ábyrgð á gæðum námsins. AST og Keilir munu í upphafi bjóða 28 námspláss og er almenn inntökuskilyrði til iðnnáms, ráðgert er að nemendur hafi gott vald á ensku.
Fyrsti hluti námsins byrjar á almennu grunnnámi flugvirkja sem stendur í tæpa 12 mánuði. Að loknu grunnnáminu þá geta nemendur valið sér sína sérleið eftir áhugasviði hvers og eins, þ.e.a.s. valið að verða B.1.1. (almennur flugvirki) B.1.3. (þyrluflugvirki) og B.2. (rafmagnsflugvirki). Til að byrja með verður boðið upp á nám B.1.1. hjá Keili en nemendur sem velja B.1.3 og B.2. munu ljúka námi sínu hjá AST í Perth í Skotlandi. Almennt er þó það þannig að nemendur ljúka B.1.1 réttindum og bæta síðar við sig annarri sérhæfingu. Keilir mun bjóða nemendum upp á stuðning í ensku með áherslu á flugtengd hugtök, orð og orðasambönd.
AST sem hefur starfrækt flugvirkjaskóla í 81 ár á Bretlandseyjum og víðar er dótturfyrirtæki University of Highlands and Islands (UHI) http://www.uhi.ac.uk/en í Perth í Skotlandi. Þess má geta að Keilir og University of Highlands and Island ráðgera frekari samstarfsverkefni á komandi misserum.
AST er samþykkt af LÍN og hafa íslenskir nemendur lokið námi þaðan í gegnum tíðina og fengið nám sitt fjármagnað með lánum frá LÍN.
Nánari upplýsingar um námið, verð, upphafstíma náms verður nánar kynnt á heimasíðu Keilis í lok janúar.
Einnig má finna nánari upplýsingar um skipulag námsins á heimasíðu AST www.airservicetraining.co.uk
Áhugasamir geta haft samband við Rúnar Árnason, verkefnastjóra Flugakademíu Keilis með því að senda póst [email protected] eða hafa samband við Keili í síma: 578-4000
Þegar nær dregur þá mun Keilir og AST auglýsa sérstaklega í fjölmiðlum kynningarfund þar sem skipulag og námið verður kynnt nánar.