Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nálastungur á Northern Light Inn
Fimmtudagur 30. september 2004 kl. 14:08

Nálastungur á Northern Light Inn

Ólöf Einarsdóttir nam nálastungufræði í Englandi í fjögur ár. Hún hefur nú flust heim til Íslands og er með vinnuaðstöðu á hótelinu Northern Light Inn í nágrenni við Bláa lónið. Víkurfréttum lék forvitni á að vita út á hvað nálastungur ganga.

„Ég var í sex ár í Englandi þar sem ég nam nálastungur í fjögur ár í The International College of Oriental Medicine í East Grinstead og útskrifaðist með Licence of  Acupuncture. Ég lauk svo BSc (Hons) gráðu í acupuncture studies frá Brighton University 2002. Ég vann á stofum úti síðustu tvö árin og er nú alkomin heim. Ég er með aðstöðu á Northern Light Inn sem er í nágrenni við Bláa lónið og í Læknalindinni í Kópavogi,“ segir Ólöf.

Hvað geturðu sagt um nálastungumeðferðina - er þetta gömul aðferð?
Nálastungur eru hluti af elsta lækningakerfi í heimi sem hefur haldist í gegnum aldirnar og er nú stundað út um allan heim. Elstu skrifaðar heimildir sem hafa fundist um þessa grein  austurlenskra lækninga eru frá 1700 fyrir Krist en talið er að þær hafi verið stundaðar mun lengur.

Út á hvað ganga nálastungur í stuttu máli?
Í stuttu máli þá eru nálastungur upprunnar í Kína og fræðin sem þær byggja á eru hluti af þeirra heimspeki eða lífssýn sem mér þykir afar heilland. Þeir líta svo á að maðurinn sé hluti af náttúrunni og að heilbrigði hans sé mikið til undir því komið að hann lifi í takt við  náttúruöflin. Í náttúrunni er ákveðið flæði eða hringrás, á eftir nóttu kemur dagur, á eftir vori kemur sumar og svo framvegis. Í manninum eru orkurásir og í þeim flæðir orka í ákveðinni hringrás sem er meðal annars undir áhrifum frá náttúruöflunum. Hver kannast ekki við að hafa heyrt talað um mátt fulls tungls á fæðingar, tíðahringi kvenna og skapferli manna og dýra. Þetta orkuflæði ætti sem sagt að vera í fullkomnu samspili við náttúruna en vegna breyttra lífsskilyrða eins og það að búa í upphituðum húsum, borða innflutta ávexti allt árið í kring, vera undir stöðugu áreiti á upplýsingaöld og þar fram eftir götunum er það ekki svo. Nútíma lífsstíll, rangt mataræði, sálræn áföll og tilfinningaleg atriði eins og kvíði, reiði og sorg hindra flæði á orkunni þannig að misræmi myndast. Þetta misræmi veikir einstaklinginn og gerir hann mótækilegri gagnvart hvers konar sýkingum. Þetta misræmi getur sem sagt þróast í veikindi sé ekkert að gert. Nálastungur ganga út á það að leiðrétta þetta, koma orkuflæðinu aftur í jafnvægi og þar með styrkja ónæmiskerfi líkamans og vinna þannig á veikindunum. 

Hvaða aðferðir notar þú til að finna þetta misræmi á orkuflæðinu?
Á hvorum úlnlið eru sex púlsar sem segja til um ástandið á orkuflæðinu. Þar leitast ég við að skilgreina einkenni eins og takt, styrk, breidd og fleira. Tunguna skoða ég, lít á form hennar, lag, lit og fleira. En rétt eins og púlsinn þá endurspeglar tungan hvað er að gerast í líkamanum orkulega séð. Ég lít á fæðingardag fólks til að reikna út orkulega samsetningu þess og þá einkum hvar veikleiki þess liggur. En það kemur úr Austurlenskri stjörnuspeki þar sem talið er að hver og einn fæðist með ákveðin sérkenni sem ráðast af afstöðu pláhnatnanna til sólarinnar og svo framvegis. Svo tek ég auðvitað inní myndina hvað fólk segir mér. Spyr það ýtarlega um núverandi ástand, lifnaðarhætti og fortíð þess. Þannig leitast ég við að fá sem réttasta mynd af einstaklingnum sem hjálpar til við að skilgreina og skilja ástand hans.    

Hvaða verki eða sjúkdóma ertu helst að meðhöndla með nálastungum?
Vegna eiginleika nálastungna til að örva græðandi mátt líkamans geta þær haft jákvæð áhrif á flesta sjúkdóma og eða þær aukaverkanir sem þeir hafa í för með sér. Þær virka einnig vel samhliða hefðbundinni læknismeðferð, til dæmis eftir erfið veikindi eða lyfjameðferð til að byggja upp og styrkja einstaklinginn.

Er ekkert vont að fara í nálastungur?
Nálarnar sem ég nota eru mjög fínar þannig að það er sjaldnast að það finnst þegar þeim er stungið inn undir húðina í orkupunktana. Einnig nota ég oftast aðeins 1-5 nálar í meðferð þannig að það ætti vonandi enginn að þurfa að setja það fyrir sig.

Komdu í lokin með eina sögu um góðan árangur af nálastungum!
Börn bregðast oft mjög vel við nálastungum og mig langar að segja frá einum af mínum sjúklingum í Englandi sem er 11 ára gamall drengur sem kom til mín vegna slæms astma og ofnæmis sem hann hafði haft frá því hann var ungabarn. Hann kom í meðferð einu sinni í mánuði og eftir fjórar meðferðir hafði astminn og ofnæmið minnkað til muna. Móðir drengsins var að vonum ánægð með árangurinn og sagði mér þá frá því að kennarinn hans hafði spurt hana hvað hún væri að gera við barnið þar sem hún hafði tekið eftir mikilli breytingu í hegðun hans. Nú gat hann setið rólegur og fylgst með í kennslustundum þar sem áður hafði hann sífellt verið á iði og órolegur.
Mamman hafði ekki minnst á þessa hegðun hans fyrr þar sem hún hafði ekki séð samhengi með hegðuninni og  astmanum og ofnæminu.En þannig virka einmitt nálastungur og oftar en ekki tekur fólk eftir jákvæðum breytingum í fari sínu eins og betri svefn og almennri vellíðan í kjölfar nálastungnameðferðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024