Nágranni kom í veg fyrir innbrot
Athugull nágranni við Baðsvelli í Grindavík hefur líklega komið í veg fyrir að brotist var inn hjá nágranna hans snemma í morgun. Grunsamlegar mannaferðir í götunni vöktu athygli nágrannans sem hafði samband við lögreglu. Þrír lögreglubílar voru sendir á vettvang. Voru tveir menn af erlendu bergi brotnir handteknir þar sem þeir höfðu verið að sniglast í kringum íbúðarhús í götunni. Í fórum þeirra fundust kúbein og fleiri tól. Gáfu þeir afar ótrúverðugar skýringar á ferðum sínum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Eins og fram hefur komið í fréttum hafa innbrot verið tíð að undanförnu á Suðurnesjum og er þetta tilvik vitni um hve árverkni íbúa skiptir miklu máli. Talsmaður lögreglunanr hvetur fólk til að hafa augun hjá sér og tilkynna strax til lögreglu verði það vart við grunsamlegar mannaferðir.