Nágrannar kvarta vegna starfsemi svínabús
Íbúar Stóru-Vatnsleysu og nágrannar svínabúsins að Minni Vatnsleysu hafa sent bæjaryfirvöldum í Sveitarfélaginu Vogum erindi með kvörtun vegna starfsemi svínabúsins að Minni Vatnsleysu. Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Voga tók málið fyrir á síðasta fundi sínum en þangað hafði málinu verið vísað frá skipulagsnefnd. Í bréfinu gera nágrannar svínabúsins athugasemdir við mengun sem starfsemi svínabúsins hefur í för með sér.
Í afgreiðslu umhverfisnefndar segir að samkvæmt Umhverfisstofnun gilda fjarlægðarmörk ekki þar sem það á aðeins við um ný bú. Hinsvegar munu verða gerðar auknar kröfur til mengunarvarnarbúnaðar í endurútgefnu leyfi skv. Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, HES. Nefndin hefur áhyggjur af lyktarmengun frá búinu og óskar eftir því við HES að fá ný starfsskilyrði til umsagnar þegar þau verða auglýst.